Alræmdir fangar í Afstöðu

Fangelsið Litla-Hraun
Fangelsið Litla-Hraun Ómar Óskarsson

Fréttir af trúnaðarbresti á milli fangelsismálastjóra og hagsmunafélags fanga hafa verið áberandi undanfarna daga. Sökum þess lék mbl.is forvitni á að vita hvaða fangar það eru sem sitja í stjórn Afstöðu. Óhætt er að segja að þeir séu alræmdir vegna glæpa sinna og ekki öll kurl komin til grafar enn.

Afstaða hefur verið iðin við að senda fjölmiðlum tilkynningar að undanförnu eða frá því í apríl þegar Guðmundur Ingi Þóroddsson, formaður Afstöðu, var fluttur frá Litla-Hrauni og í fangelsið á Akureyri. Þá sagði formaðurinn að þetta hefði verið með ráðum gert til að brjóta á bak aft­ur rétt­inda­bar­áttu fé­lags­ins. Síðar hafa borist tilkynningar um að Páll Winkel, fangelsismálastjóri, neiti að funda með Afstöðu og hafni í raun öllum samskiptum við félagið.

Í tilkynningu frá félaginu sem barst í morgun segir: „Afstaða hvetur því Pál, sem hingað til hefur algjörlega hafnað öllum samskiptum og viðræðum við talsmenn fanga, til að brjóta odd af oflæti sínu og hlusta á og virða sjónarmið og ábendingar okkar. Það teljum við einu raunhæfu leiðina til að byggja upp á ný það traust sem stofnunin hefur undanfarin ár vanvirt og fótum troðið.“ Páll vill lítið um málið segja en hefur þó sagt að traust verði að ríkja og að þessi mál séu í sífelldri endurskoðun.

Skipulagði fíkniefnainnflutning á Litla-Hrauni

Guðmundur Ingi, formaður Afstöðu, var tiltölulega nýlega fluttur hingað til lands frá Danmörku þar sem hann hlaut 12 ára fangelsi fyrir innflutning á fíkniefnum. Hann var tal­inn höfuðpaur í afar um­fangs­mikl­um fíkni­efnainn­flutn­ingi en magnið hljóp á tug­um kílóa af am­feta­míni. Fleiri Íslend­ing­ar voru viðriðnir innflutninginn.

Hann er enginn nýgræðingur þegar kemur að innflutningi fíkniefna og hef­ur margsinn­is kom­ist í kast við lög­in hér á landi vegna fíkni­efna­mála. Árið 2000 var hann dæmd­ur í sjö ára fang­elsi fyr­ir inn­flutn­ing á 3.850 e-töfl­um og sölu og dreif­ingu fíkni­efn­anna hér­lend­is.

Dóm­ur Hæsta­rétt­ar féll 19. des­em­ber 2000 en á sama tíma var Guðmund­ur Ingi að leggja á ráðin um enn um­fangs­meiri fíkni­efnainn­flutn­ing. Hann játaði sinn þátt í fíkni­efna­smygli sem hann skipu­lagði ásamt öðrum meðan hann var í fang­elsi. Með aðstoð sam­fanga sinna og manna utan fang­els­is­ins flutti hann inn tæp­lega 1.000 e-töfl­ur og gerði mis­heppnaða til­raun til að flytja inn 4-5.000 e-töfl­ur.

Formaður hagsmunasamtaka fanga hefur því gerst sekur um að misnota aðstöðu sína innan veggja Litla-Hrauns. Frá aldamótum hefur hann verið dæmdur í meira en tuttugu ára fangelsi.

Ákærður vegna dauða samfanga

Þá er í stjórn Afstöðu einnig að finna Börk Birgisson. Hann þarf vart að kynna þeim sem fylgst hafa með fréttum undanfarin ár og er sérstakt fréttaknippi á mbl.is tileinkað honum og Annþóri Kristjáni Karlssyni. Hæstiréttur dæmdi Börk í sex ára fangelsi í október síðastliðnum fyr­ir sér­stak­lega hættu­leg­ar lík­ams­árás­ir, ólög­mæta nauðung, frels­is­svipt­ingu og til­raun­ir til fjár­kúg­un­ar. Börkur brást við dóminum með lófaklappi og lét ekki af því fyrr en fangaverðir brugðust við.

Börkur var í febrúar 2013 einnig dæmdur fyrir að kalla héraðsdóm­ara „tussu“ og hrækja í kjöl­farið á hana. Fjallað var um mál­flutn­ing fyr­ir Hæsta­rétti á mbl.is og kom þar fram að sak­sókn­ari teldi að málið væri eins­dæmi.

Hvað Börk varðar ber að endingu að nefna ákæru sem hann sætir fyr­ir að valda dauða sam­fanga 17. maí 2012 í félagi við Annþór Kristján. Þeir hafa frá byrj­un staðfast­lega neitað sök í mál­inu en það er enn til meðferðar hjá Héraðsdómi Suðurlands. Þeir eru ákærðir fyr­ir að hafa í sam­ein­ingu veist með of­beldi á fanga á Litla-Hrauni og veitt hon­um högg á kvið með þeim af­leiðing­um að rof kom á milta og á bláæð frá milt­anu sem leiddi til dauða hans skömmu síðar af völd­um inn­vort­is blæðinga.

Þannig að formaður hagsmunasamtaka fanga hefur misnotað aðstöðu sína innan fangelsisins og stjórnarmaður sætir ákæru vegna dauða samfanga.

Stórhættulegur umhverfi sínu

Fleiri eru í stjórn Afstöðu. Næstan ber að nefna Stefán Loga Sívarsson. Hann á að baki langan sakarferil og hefur – eins og Börkur – eigið fréttaknippi á mbl.is. Stefán Logi hlaut sinn fyrsta dóm árið 1998 þegar hann var 16 ára gamall og hefur frá því hlotið dóma fyrir lík­ams­árásir, auðgun­ar­brot, um­ferðar- og fíkni­efna­laga­brot.

Síðast var Stefán Logi dæmdur í svonefndu Stokkseyrarmáli en í því hlaut hann sex ára dóm. Í dómi Héraðsdóm­s Reykja­vík­ur var tekið fram að við ákvörðun refs­ingar hafi verið haft í huga að Stefán og fleiri hafi verið sak­felld­ir fyr­ir óvenju gróf­ar lík­ams­árás­ir sem ekki verði bet­ur séð en í sum­um til­fell­um hafi hreinlega verið pynt­ing­ar. 

Sak­sókn­ari í málinu sagði að Stefán Logi væri stór­hættu­leg­ur um­hverfi sínu og til­vilj­un sem ráði því hver láti fyrst lífið, hann sjálf­ur eða ein­hver sem fyr­ir hon­um verður.

Engin hliðstæða í réttarframkvæmd

Að lokum ber í þessari yfirferð yfir stjórnarmenn Afstöðu að nefna Bjarka Má Magnússon. Hann var í maí 2010 dæmdur í átta ára fangelsi fyrir fjölmargar líkamsárásir og gróf kynferðisbrot gegn þáverandi sambýliskonu sinni. Ofbeldi mannsins stóð í tæp tvö ár, á árunum 2006 til 2008.

Í niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur sagði að brot Bjarka Más ættu sér enga hliðstæðu í réttarframkvæmd á Íslandi. Hann hafi markvisst brotið niður mótstöðuafl sambýliskonu sinnar og gert hana sér undirgefna. Hluti af ofbeldinu gegn konunni fólst í að fá ókunnuga karlmenn, stundum fleiri en einn, til að hafa samræði við hana gegn hennar vilja.

Konan kom í viðtal við DV í ágúst 2009 þar sem hún sagði Bjarka Má hafa heillað fólk upp úr skónum á sama tíma og hann dró fjöldann allan af ókunnugum mönnum inn á heimili þeirra til að nauðga henni.

Viljaleysi til samstarfs

Sem áður segir hefur Aðstaða verið iðin við að senda fjölmiðlum tilkynningar og þrýst á að þær verði birtar í viðkomandi miðlum. Þannig birti mbl.is frétt um staðhæfingu Guðmundar Inga þess efnis að aðeins tvær sálfræðingar væru við störf hjá Fangelsismálastofnun, annar í barneignaleyfi og hinn í sérverkefnum á skrifstofu stofnunarinnar. Í samtali við mbl.is í gær sagði Páll Winkel, fangelsismálastjóri, þetta hins vegar rangt. Þrír starfandi sálfræðingar væru við stofnunina.

Í tilkynningu frá Guðmundi Inga sem send var í morgun segist hann ítreka fyrri fullyrðingar þess efnis að enginn sálfræðingur starfi í fastri og fullri vinnu í fangelsum landsins „við þá lágmarks heilbrigðisþjónustu sem sálgæsla svo sannarlega er.“

Þá segir að viljaleysi stofnunarinnar til samstarfs eða viðræðna við forsvarsmenn Afstöðu sé fyrir neðan allar hellur og að stofnunin hafi vanvirt og fótum troðið það traust sem ríkti á milli hagsmunasamtaka fanga og fangelsismálastjóra.

Uppfært klukkan 16.47.

Guðmundur Ingi vill taka það fram að Stefán Logi Sívarsson yfirgaf stjórn Afstöðu fyrir fáeinum mánuðum síðan.

Börkur Birgisson í fylgd lögreglumanns.
Börkur Birgisson í fylgd lögreglumanns. mbl.is
Stefán Logi Sívarsson, til vinstri.
Stefán Logi Sívarsson, til vinstri.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert