„Ætlum að sigra okkur sjálf“

Hópurinn HjólaKraftur setur sér háleit markmið
Hópurinn HjólaKraftur setur sér háleit markmið mbl.is/Golli

„Við ætlum ekkert að vera fyrst, en ætlum hins vegar að sigra okkur sjálf sem og áheitasöfnunina,“ segir Þorvaldur Daníelsson forsvarsmaður hópsins HjólaKrafts sem nú keppir í WOW Cyclothon-hjólreiðakeppninni.

Meðalaldur hópsins er umtalsvert lægri en annarra sem skráðir eru til keppni, en um er að ræða sex ungmenni og fjóra fullorðna keppendur. Ungmennin eiga það sameiginlegt að hafa fundið sig í hjólaíþróttinni, en þau nutu sín ekki í öðrum íþróttum eða hreyfingu og voru í áhættuhóp vegna lífstílssjúkdóma.

Þorvaldur stofnaði hópinn fyrir um tveimur árum, en hann er í samstarfi við Tryggva Helgason barnalækni við Heilsuskóla LSH. „Hópurinn hefur alltaf sett sér markmið, en þau hafa líklega aldrei verið eins háleit og nú,“ segir Þorvaldur.

„Nú ákváðum við að setja okkur eitt stórt markmið.“

Mótlæti eykur keppnisskapið

Hjólagarparnir stefna ekki á titil í keppninni sjálfri, heldur vilja þau fyrst og fremst njóta og ná markmiðum sínum. Þorvaldur segir mótlæti fyrir keppni einungis hafa gefið keppnisskapi liðsins byr undir báða vængi.

„Margir hafa ekki trú á að við getum þetta, en það bara herðir okkur og gerir okkur enn ákveðnari í að klára með stæl. Okkur liggur allavega ekkert á, við höfum 72 klukkustundir,“ segir Þorvaldur.

HjólaKraftur er nú í þriðja sæti í áheitasöfnun keppninnar, en Þorvaldur segir drauminn vera að sigra hana og vinna þannig hjólreiðaferð fyrir hópinn til útlanda. Allt söfnunarfé í keppninni rennur til bæklunarskurðdeildar Landspítalans. 

„Okkur langar gríðarlega að fara út saman, það væri mikill sigur.“

Facebook síða HjólaKrafts

Áheitasíða HjólaKrafts

Frétt mbl.is: Ætla að hjóla hringinn frá Hörpu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert