Ærandi hávaði á leikskóla

„Ástandið er mjög slæmt. Það er varla hægt að tala saman inni í húsinu hjá okkur og börnin alveg spennast upp við þennan hávaða,“ segir Ragnheiður Halldórsdóttir, leikskólastjóri leikskólans Lindarborgar, en stórfelldar framkvæmdir á lóðinni samhliða leikskólanum hafa haft mikil áhrif á starfssemi skólans í dag og í gær.

Að sögn Ragnheiðar eru framkvæmdirnar það hávaðasamar að starf leikskólans fer allt úr skorðum. „Gólfin titra í húsinu. Það er ekki einu sinni hægt að lesa fyrir börnin,“ segir Ragnheiður, en framkvæmdirnar byrjuð í seinustu viku. „Þá voru þeir fjær en þetta versnaði um helming í gær þegar þeir færðu sig hingað að lóðamörkunum.“ 

Þegar ljósmyndari mbl.is fór á staðinn nú rétt fyrir hádegi var grafa að höggva í bergið örfáum metrum frá grindverki leikskólans með gríðarlegum hávaða og blés ryki yfir útisvæðið þar sem börnin voru að leika sér.

Borgin veitti leyfi

Reykjavíkurborg veitti byggingaleyfi á lóðinni og að mati Ragnheiðar hefði átt að bera tillit til leikskólans og starfsemi hans þegar það var gert. „Það er alveg forkastanlegt að borgin veiti þetta leyfi vitandi að hér starfi leikskóli og að húsið sem verið er að byggja standi alveg upp við lóðina okkar,“ segir Ragnheiður.

Lindarborg fer í sumarleyfi í næsta mánuði og verður leikskólanum lokað í fjórar vikur. „Þeir hefðu nú vel getað farið í þessar framkvæmdir á þessum fjórum vikum í staðinn fyrir að koma allri dagskrá skólans í uppnám.“

Glymur um alla bygginguna og leikskólalóðina

Faðir barns á Lindarborg hafði samband við mbl.is og lýsti ástandinu. Sagði hann meðal annars að börnin og starfsfólkið þurfi að þola óheyrilegan hávaða vegna jarðvegsbrotsins sem virðist langt yfir heilsuverndarmörkum og glymur um alla bygginu leikskólans og leikskólalóðina.

„Hávaðinn er það mikill að hann gæti vel haft skaðleg áhrif á heyrn barnanna, auk þess sem hann ógnar öryggi þeirra þar sem starfsmenn eiga erfiðara með að fylgjast með börnunum og heyra í þeim vegna hávaðans,“ sagði hann.

Hann gagnrýnir borgaryfirvöld fyrir að hafa veitt leyfið og segir það hálfgert skipulagsslys að taka ekkert tillit til heilsu og öryggis þeirra barna sem eru á leikskólanum.

Íhugar að loka fyrr

Óhætt er að segja að þessar framkvæmdir hafi áhrif á margar fjölskyldur en 60 börn eru á Lindarborg. Ragnheiður mun funda með aðilum frá Reykjavíkurborg í dag en lítur svo á að lítið sé hægt að gera í málinu. 

„Næst á dagskrá er einfaldlega að loka leikskólanum. Það er ekki hægt að starfa undir þessum kringumstæðum og bjóða börnum og starfsfólki upp á þetta.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert