Leit lokið í Bleiksárgljúfri

Frá leitinni í Bleiksárgljúfri í kvöld.
Frá leitinni í Bleiksárgljúfri í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Björgunarsveitarmenn hafa nú lokið leitinni í Bleiksárgljúfri í dag, en kafarar fundu ekkert í hylnum í gljúfrinu. Um 100 björgunarsveitarmenn frá fjölda björgunarsveita hafa verið við störf á svæðinu í dag. Var vatni dælt frá 30 metra háum fossi svo kafarar gætu komist betur að svæðinu. 

Var aðstandendum tilkynnt um það fyrr í kvöld að leitinni sé lokið, og að ekkert hafi fundist. Aðstæður í gljúfrinu eru afar erfiðar. Undir fossinum fannst hellir en ekki var talið mögulegt að komast inn í hann. Björgunarsveitarmaðurinn sem komst næst hellinum telur að hann sé að minnsta kosti 10 metra langur og að allt vatnið í fossinum fari í gegnum hellinn. 

Eru björgunarsveitarmenn nú að taka búnaðinn saman og halda heim á leið. Töluverður búnaður er á svæðinu en þrjár rafstöðvar voru fluttar að gljúfrinu auk fjölda dælna sem notaðar voru til þess að dæla vatninu frá fossinum. Eftir að hafa komið dælunum fyrir hófst dælingin upp úr klukkan 16 í dag. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert