„Ef ég hefði fallið ofan í væri ég einfaldlega bara farinn“

„Ég hef séð margt í þessum straumvatnsheimi en þetta er með því ógnvænlegasta og óþægilegasta sem ég man eftir,“ segir Jón Heiðar Andrésson björgunarsveitarmaður sem seig niður fossinn í Bleiksárgljúfri í leit að Ástu Stefánsdóttur og uppgötvaði göngin sem  mbl.is greindi frá í gær. Jón Heiðar hefur starfað við straumvatnsbjörgun í 20 ár og segir aðgerðirnar um helgina vera ólíka öllu öðru sem hann hefur kynnst í sínu starfi.

„Það er ómögulegt fyrir fólk að átta sig á því þegar talað er um foss hvers konar foss þetta er. Þetta er í sjálfu sér ekki foss heldur vatn sem fellur 30 metra niður þröngan sprungufarveg. Þetta er ekki þessi hefðbundni formfagri foss þar sem vatnið hefur rofið sig í gegnum berg,“ segir Jón Heiðar til útskýringar. 

Eini staðurinn sem ekki hafði verið leitað á

Þetta var eini staðurinn þar sem ekki var búið að leita á og segir Jón Heiðar að allar líkur hafi verið á því að sú sem leitað var að hafi verið inni í göngunum. „Þegar ég stóð þarna reyndi ég að ímynda mér hvar straumurinn gat haldið viðkomandi og reyndi að sjá fyrir mér hvernig straumurinn hegðaði sér. Þá tók ég eftir því að það gæti mögulega verið sylla þarna með einhverjum sprungum í kring og hugmyndin var að nota snjóflóðastöng til þess að pota í gegnum vatnið og átta mig betur á því hvað gæti mögulega verið þarna undir,“ segir Jón Heiðar.

Jón Heiðar gat lítið athafnað sig undir vatninu sem féll af gríðarlegum krafti yfir hann. Ekki fyrr en sú hugmynd kviknaði að draga úr fallkrafti vatnsins. „Hluti af hugmynd strákanna var að dæla upp úr lauginni sem var fyrir ofan. Þar situr vatnið í stórri laug og rennur þaðan niður í fossinn. Við minnkuðum vatnsmagnið með vatnsdælu og dældum því fram fyrir fossinn. Þar af leiðandi minnkaði vatnsmagnið í fossinum um um það bil helming og þannig komst ég miklu nær,“ segir Jón Heiðar.

„Það var þá sem ég varð fyrst var við að það sem ég hélt áður að væri miklu meira sprungukerfi þar sem vatnið félli í gegnum bergganginn voru einfaldlega göng. Þú getur ímyndað þér að vatnið fellur fram af, skellur á vegg fyrir framan og þaðan fór það út um allt. En svo þegar við minnkuðum vatnið sá ég betur hvert það fór og tók eftir göngum sem fossinn hafði sorfið út á mörgum árum. Þetta var ekki ósvipað jökulsvelg þar sem vatnið sverfur til jökulinn og býr þannig til svelg. Það var mín upplifun að þessu. Nákvæm og formfögur göng,“ lýsir Jón Heiðar.

Allt sem fer niður fossinn kastast niður í göngin

„Þá áttaði ég mig á því að allt sem fór niður fossinn myndi alltaf kastast niður í þessi göng. Ég ímynda mér að í eðlilegu rennsli í fossinum yrðu þessi göng full og þess vegna sprautaðist þetta meira svona út um allt,“ segir Jón Heiðar.

Að hans mati var krafturinn í ísköldu vatninu erfiðastur viðureignar. „Þetta er eins og þegar gengið er nálægt Skógafossi eða Seljalandsfossi. Það myndast svo mikill vindkraftur frá vatni sem fellur svona marga metra niður. Þú kemst aldrei undir vatnið vegna þess að krafturinn leyfir það ekki.“

Þegar hann leit niður göngin þurfti hann að nota öflugt höfuðljós sitt til þess að lýsa þau upp. Hann segir að mikið vatn hafi seytlað í þeim sem hafi helst minnt á nuddpott, en göngin hafi verið um metri í ummál. 

„Þau voru 10 metra niður miðað við þar sem ég stóð. Ég var búinn að sjá að það var sylla þarna neðar sem göngin væntanlega opnuðust út í gegnum en við náðum aldrei að komast svo neðarlega vegna kraftsins í vatninu. Þú ert inni í sprungukerfinu og inni í fossinum og vilt bara ekki vera þar. Þú ert í hættu og það er verið að dæla vatninu fram hjá þér,“ segir Jón Heiðar.

„Þú endar bara einhvers staðar inni í jökli“

Aðspurður hvað hefði gerst ef honum hefði skrikað fótur svarar Jón Heiðar: „Ef ég hefði fallið ofan í væri ég einfaldlega bara farinn. Þetta er eins og að falla í jökulsvelg. Vatnið í göngunum rennur bara eitthvað og þú endar bara einhvers staðar inni í jökli.“

Jón Heiðar hékk í sigbelti yfir göngunum. „Ég var í hlutverki straumvatnsbjörgunarmanns eða fjallabjörgunarmanns. Erfitt að gera upp við sig hvort maður var vegna þess að ég var bæði í vatni og í hangandi stöðu að athafna mig í einhverjum aðstæðum sem eru langt umfram það sem björgunarmaður ætti að vera að athafna sig í,“ segir Jón Heiðar.

Vel að leitinni staðið og valið fólk í hverri stöðu

Hann segir að vinnubrögð við leitina hafi verið til fyrirmyndar og að sérfræðingar hafi verið á öllum stöðum. „Þetta eru rafvirkjar og verkfræðingar og alls kyns hörkuævintýramenn sem hafa gert margt í sínu lífi og þess vegna þora þeir að fara svona langt. En í lok dags eru þeir að vinna ákveðið sjálfboðastarf og við getum bara farið ákveðið langt.“

Hann bætir við: „Við erum ekki í einhverjum könnunarleiðangri eða ævintýrastarfsemi. Hvert skref er hugsað og við nálgumst hættuna með að hafa reiknað allt út og áttað okkur á því hvað mögulega getur gerst. Út frá því höldum við áfram og það er ekki vaðið út í vitleysuna, það er á hreinu.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert