Lífsgæðin svipuð og fyrir hrun

Árið 2013 bjuggu 6,7% Íslendinga við skort á efnislegum lífsgæðum. Hlutfallið lækkaði umtalsvert í aðdraganda hrunsins, fór úr 7,4% árið 2007 í 2,5% árið 2008, en jókst eftir það. Hlutfallið var þó ekki hærra á árunum 2010-2013 en það hafði verið árin 2004-2007.

Í samanburði við önnur lönd á Evrópska efnahagssvæðinu var hlutfall íbúa sem býr við skort á efnislegum lífsgæðum á Íslandi það sjötta lægsta  árið 2012, samkvæmt frétt Hagstofu Íslands.

Þeir sem teljast búa við skort á efnislegum gæðum eru skilgreindir þannig að þeir búi á heimili þar sem þrennt af eftirfarandi á við:

1. Hefur lent í vanskilum húsnæðislána eða annarra lána vegna fjárskorts á síðastliðnum 12 mánuðum.

2. Hefur ekki efni á að fara árlega í vikulangt frí með fjölskyldunni.

3. Hefur ekki efni á kjöti, fiski eða sambærilegri grænmetismáltíð að minnsta kosti annan hvern dag.

4. Getur ekki mætt óvæntum útgjöldum.

5. Hefur hvorki efni á heimasíma né farsíma.

6. Hefur ekki efni á sjónvarpstæki.

7. Hefur ekki efni á þvottavél.

8. Hefur ekki efni á bíl.

9. Hefur ekki efni á að halda húsnæðinu nægjanlega heitu.

Hærra hlutfall karla býr við betri lífsgæði en konur

Árið 2013 skorti 7,5% kvenna efnisleg lífsgæði en 5,9% karla. Þá var tíðnin lægst í elsta aldursbilinu, 65 ára og eldri. Sé horft til undanfarinna ára hækkaði hlutfallið hinsvegar meira á öðrum aldursbilum eftir 2008 og mest á bilinu 25–34 ára. Árið 2013 skorti 25,2% heimila einhleypra með börn efnisleg lífsgæði. Næst á eftir komu heimili einhleypra og barnlausra með 11,7%. Hlutfallið var lægra á meðal þeirra sem tilheyrðu öðrum heimilisgerðum.

Þá var hlutfallið hátt á meðal atvinnulausra og meðal öryrkja, eða 21,5% fyrrnefnda hópsins og 24,6% þess síðarnefnda árið 2013. Til samanburðar má nefna að hlutfallið var aðeins 4,1% á meðal fólks í fullu starfi en 7,4% á meðal námsfólks. Þá er samband á milli skorts á efnislegum lífsgæðum og menntunar. Lægst var hlutfallið á meðal háskólamenntaðra (4,1%) en hæst á meðal þeirra sem aðeins höfðu lokið grunnmenntun (7,9%).

Þó skortur á efnislegum lífsgæðum hafi verið tíðastur í röðum öryrkja og atvinnulausra árið 2013 var þróun hópanna yfir tíma mjög ólík. Hlutfallið lækkaði hratt hjá öryrkjum frá 2007 til 2009, úr 22,7% í 9,3%, en hækkaði svo aftur í 21,8% árið 2010.

Hjá atvinnulausum lækkar hlutfallið hinsvegar frá upphafi tímabilsins, úr 29,6% árið 2004 í 2,6% árið 2008, en hækkar öll árin eftir það.

Hvað telst fátækt?

Í Félagsvísum Hagstofu Íslands kemur fram að í fræðilegum rannsóknum er fátækt gjarnan skilgreind sem afstæð. Fólk er fátækt ef það hefur ekki efni á þeim lífsgæðum sem þykja eðlileg í því samfélagi sem það tilheyrir. Fátækt snýst því ekki aðeins um skort á lífsnauðsynjum heldur einnig um að halda í við neysluvenjur samfélagsins.

Hefðbundnar mælingar á fátækt skilgreina fátækt sem tekjur undir vissu marki, það algengasta verandi 60% af miðgildi ráðstöfunartekna.

„Enda þótt góðar ástæður séu til að ætla að fólk sem er fyrir neðan slík tekjumörk eigi erfitt með að halda í við neysluvenjur samfélagsins eru ákveðnir annmarkar á slíkum mælingum þegar kemur að samanburði á milli landa þar sem bæði tekjur og neysluvenjur eru ólíkar frá einu landi til annars,“ segir í Félagsvísum.

Á tímabilinu 2004 til 2013 gengu 13 lönd í Evrópusambandið, þ.e. Búlgaría, Eistland, Króatía, Kýpur, Lettland, Litháen, Malta, Rúmenía, Tékkland, Pólland, Slóvakía, Slóvenía og Ungverjaland. Lífskjör í flestum þessara landa eru umtalsvert lakari en í þeim löndum sem að fyrir voru og fyrir vikið varð snemma ljóst að lágtekjumörk myndu ekki gefa rétta mynd af umfangi og dreifingu lífskjaravanda innan Evrópusambandins.

Lífsgæðin mest í Sviss en minnst í Búlgaríu

„Sem dæmi má nefna að samkvæmt Eurostat voru lágtekjumörkin í Noregi 25.732 evrur árið 2013 en sama ár var miðgildi ráðstöfunartekna í Ungverjalandi 4.529 evrur. Jafnvel þó þessar upphæðir væru leiðréttar með tilliti til verðlags er munurinn slíkur að við getum ályktað að fólk við lágtekjumörk í Noregi hafi búið við betri lífskjör en fólk sem er við miðju tekjudreifingarinnar í Ungverjalandi. Þetta ár voru 10,9% íbúa í Noregi fyrir neðan lágtekjumörk samanborið við 14.3% íbúa Ungverjalands. Það segir okkur sitthvað um stærð hópsins sem getur ekki haldið í við neysluvenjur í hvoru samfélagi fyrir sig en hjálpar okkur lítið við að bera saman lífskjör í löndunum tveimur,“ segir enn fremur í ritinu.

Hlutfallið sem skorti efnisleg lífsgæði var lægst í Sviss, 3,6%, en hæst í Búlgaríu, 61,6%. Hlutfall fólks undir lágtekjumörkum var lægst á Íslandi, 7,9%, en hæst í Griklandi, 23,1%. Samhliða þessu hætti Eurostat að nota fátæktarhugtakið yfir þá sem féllu fyrir neðan tilteknin tekjumörk og tóku upp hugtakið „At-risk-ofpoverty“, en Hagstofa Íslands notar hugtakið „lágtekjumörk“. Þessi breyting á orðlalagi endurspeglar að ekki er sjálfgefið að þeir sem eru fyrir neðan tiltekin tekjumörk á tilteknum tímapunkti búi við fátækt eða skort.

 Skorturinn mestur hjá einstæðum foreldrum og einstæðingum

Skortur á efnislegum lífsgæðum var algengastur á meðal fólks sem bjó á heimili með einum fullorðnum einstakling með börn. Tíðni jókst einnig mest í þessum hópi eftir hrunið, fór úr 10,2% árið 2008 í 25,2% árið 2013, en hafði þó einnig lækkað mest á milli 2007 og 2008, úr 25,3% í 10,2%.

Næst koma einstaklingar sem búa einir á heimili. Þessi hópur fór úr 14,2% árið 2004 í 6,9% árið 2008 en hlutfallið hækkaði svo fram til 2011 þegar það fór í 14,7% en lækkaði svo árið eftir. Árið 2013 bjuggu 11,7% hópsins við skort á efnislegum lífsgæðum. Tíðnin var mun lægri í heimilum tveggja fullorðinna einstaklinga, hvort sem er með eða án barna, enda njóta slík heimili gjarnan tveggja fyrirvinna og vissrar stærðarhagkvæmni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert