Fá húðkrabbamein gamla fólksins

Ljósabekkur. Mynd úr safni.
Ljósabekkur. Mynd úr safni. mbl.is

„Það sem kom í ljós var að þeir sem voru undir fimmtugu og stunduðu ljósabekki í miklum mæli voru að fá húðkrabbamein gamla fólksins,“ segir Baldur Tumi Baldursson, húðlæknir, um nýja rannsókn um tengsl ljósalampa og húðkrabbameins sem birtist í seinasta mánuði á vef MD.com. 

Í rannsókninni kemur fram að nú er grunnfrumukrabbamein að greinast í auknum mæli hjá ungu fólki. Sú gerð af húðkrabbameini ætti aðeins að finnast hjá fólki sem er vel yfir fimmtugu og þá helst yfir sjötugu að mati Baldurs Tuma.  Þeir sem greindust með þá gerð af húðkrabbameini áttu það sameiginlegt að hafa stundað ljósabekki í miklu magni. Jafnframt kom fram að ljósalampar, sem einu sinni voru taldir öruggari en sólbað, geti framleitt 10-15 sinnum meira magn af útfjólubláum geislum en sólin. 

Hver klukkutími í ljósabekk hefur áhrif alla ævi

Að mati Baldurs Tuma er helsti ókosturinn við ljósabekki hvað þeir geta verið ávanabindandi. „Það er lítill hópur af fólki hér á landi sem er einfaldlega háður ljósalömpum og fá þar að leiðandi alltof mikið af útfjólubláu ljósi sem leggst á húðina. Þetta virkar þannig að hver klukkutími sem þú ert í ljósi á ævinni hefur áhrif. Hann fer ekkert í burtu heldur leggst ofan á það sem fyrir er. Þetta er eins og bankareikningur þar sem aðeins er lagt inn en ekkert tekið út. Svo að lokum þegar komið er nógu stór skammtur fara skemmdirnar á erfðarefninu í húðinni að tjá sig með krabbameini.“

Ljósalömpum á höfuðborgarsvæðinu fækkar hratt

Samkvæmt heimasíðu Geislavarna ríkisins hefur notkun ljósabekkja minnkað mikið undanfarin ár. Niðurstöður könnunar, sem stofnunin lét gera á síðasta ári og var birt í nóvember, sýndu að ell­efu pró­sent lands­manna, sem eru 18 ára og eldri, höfðu notað ljósa­bekki á sl. 12 mánuðum. Var það mik­il breyt­ing frá ár­inu 2004 þegar hlut­fallið var 30%. 

Einnig hefur ljósabekkjum á höfuðborgarsvæðinu fækkað gífurlega undanfarin ár. Samkvæmt nýrri talningu Geislavarna ríkisins eru ljósabekkir sem almenningi er seldur aðgangur að á höfuðborgarsvæðinu núna 61 talsins en þeir voru 207 árið 1988.

„Notkun ljósalampa hefur vissulega minnkað á síðustu árum. En það eru ennþá sólbaðsstofur starfandi hér á landi sem þýðir að það er markaður fyrir þessu,“ segir Baldur Tumi. „Annað en sólin þá er ljósalampinn alltaf aðgengilegur og sumt fólk getur bara ekki slitið sig frá þeim.“

Hér má sjá greinina sem birtist á vefnum MD.com.

Baldur Tumi Baldursson, húðlæknir.
Baldur Tumi Baldursson, húðlæknir. SteinarH
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert