Stærri viðburðir virðast ekki í vændum

Sérfræðingar í vatnamælingum hjá Veðurstofu Íslands fóru að Múlakvísl í …
Sérfræðingar í vatnamælingum hjá Veðurstofu Íslands fóru að Múlakvísl í kvöld og færðu mæla af gömlu brúnni yfir á þá nýju. Ljósmynd/Jónas Erlendsson

Sérfræðingar Veðurstofu Íslands hafa nú sannreynt að minni háttar jökulhlaup er í Múlakvísl. Hlaupið hófst 2. júlí og jókst þá rennsli árinnar auk þess sem hækkandi rafleiðni gaf til kynna að jarðhitavökvi hafi blandast bræðsluvatni við botn Mýrdalsjökuls, þar sem hlaupin eiga upptök sín.

Almannavarnardeild ríkislögreglustjóra lýsti í dag yfir óvissustigi vegna hlaupsins.

Ferðafólk stoppi ekki við ána

Allmargir sigkatlar af völdum jarðhitasvæða við botn eru þekktir innan Kötluöskjunnar en ekki er vitað nákvæmlega í hvaða katli (eða kötlum) þetta hlaup á upptök sín. Brennisteinsvetni berst nú frá Múlakvísl og er rétt að gæta varúðar í nánd hennar, vegna hættulegra lofttegunda. Ferðafólki er ráðið frá því að stoppa við ána.

Rafleiðni hefur einnig aukist í Jökulsá á Sólheimasandi, samkvæmt gögnum úr mæli Veðurstofunnar. Áin á upptök sín í Sólheimajökli. Þann 5. júlí tók leiðni að aukast úr 80 µS/cm í ~160 µS/cm og hefur haldist stöðug í því gildi í dag. Hlaupvatn kemur nú einnig undan Sólheimajökli úr öðrum sigkatli í jöklinum. Jöklafýlu hefur einnig orðið vart við jökuljaðarinn og er rétt að hafa varan á þegar farið er að jöklinum.

Ekki er óvenjulegt að leki eða lítil hlaup af þessu tagi komi úr Mýrdalsjökli að sumarlagi, en hugsanlegt er að vatnsmagnið aukist enn frekar,“ segir í tilkynningu Veðurstofunnar.

„Gögn sem aflað hefur verið benda ekki til þess að stærri atburðir séu í vændum en þó er hugsanlegt að stærra flóð gæti komið skyndilega og verður viðbragðstími þá mjög skammur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert