Mál gegn tveimur felld niður

Ríkissaksóknari hefur ákveðið að falla frá máli gegn fyrrverandi starfsmanni símafyrirtækisins Nova. Hann var til rannsóknar vegna LÖKE-málsins. Maðurinn var í lokuðum hópi á Facebook ásamt tveimur félögum sínum, lögfræðingi og lögreglumanni. Meint brot lögreglumannsins fólst í óeðlilegum flettingum í málakerfi ríkislögreglustjóra, LÖKE. Hann var sakaður um að hafa deilt upplýsingum úr LÖKE með spjallhópnum.

Símamaðurinn fyrrverandi er því ekki lengur með réttarstöðu sakbornings. Honum var vikið úr starfi hjá Nova vegna trúnaðarbrests vegna þess hvernig hann blandaðist inn í rannsókn málsins. Áður hafði ríkissaksóknari einnig fellt niður málið gegn lögfræðingnum. Hann fór í leyfi frá starfi sínu vegna rannsóknar málsins.

„Nú liggur fyrir að sakborningarnir þrír sem voru handteknir vegna málsins hafa ekki deilt með sér neinum trúnaðargögnum úr LÖKE né heldur úr kerfum Nova, enda voru þær ásakanir frá upphafi úr lausu lofti gripnar,“ sagði Garðar St. Ólafsson hdl., sem hefur verið verjandi allra mannanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert