Hlaupa á vit öræfanna

Lagt í hann á vit öræfanna, á hlaupum.
Lagt í hann á vit öræfanna, á hlaupum. mbl.is/Eva Björk Ægisdóttir

365 hlauparar glíma við náttúruöflin í dag í hinu árlega Laugavegshlaupi, 55 km um hálendi Íslands, sem ræst er nú kl. 9 í Landmannalaugum. Búast má við öllu af veðrinu auk þess sem árnar geta verið vatnsmiklar eftir rigningu og leysingar síðustu daga. 66% þeirra sem taka þátt hafa aldrei hlaupið leiðina áður.

Lagt var stað í rútum úr Laugardalnum kl. 4:30 í nótt en hlaupið var ræst nú kl. 9 frá Landmannalaugum. Algengast er að þessi vinsæla gönguleið um íslensk öræfi sé farin á 4 dögum, en búast má við fyrstu hlaupurunum í mark í Þórsmörk milli kl. 13 og 14.

Tímamörk eru í hlaupinu og þurfa hlauparar að vera komnir í Álftavatn (22 km) á innan við 4 klst og í Emstrur (34 km) á innan við 6 klst. Það er því aðeins fyrir vel æfða  hlaupara að taka þátt í þessari miklu þolraun. Mettími í Laugavegshlaupinu er 4 klukkustundir og 19 mínútur í karlaflokki og 5 klukkustundir í kvennaflokki.

Sjá viðtal mbl.is við keppendur: Njóta náttúrunnar á hlaupum

Spennandi keppni framundan

Búast má við spennandi keppni um sigurinn í báðum flokkum í dag, því margir af þeim sem hafa náð bestum tíma í Laugavegshlaupinu undanfarin ár eru á meðal keppenda. Sigurvegarinn í karlaflokki í fyrra, Örvar Steingrímsson, verður með aftur í ár og líka Þorbergur Ingi Jónsson sem á annan besta tíma sem náðst hefur í hlaupinu.

Þá eru þær Guðbjörg Margrét Björnsdóttir sem sigraði árið 2011 og Elísabet Margeirsdóttir sem var í öðru sæti í fyrra á meðal keppenda í kvennaflokki. Einnig eru nokkrir erlendir hlauparar sem eiga ágætis tíma í maraþoni með og verður spennandi að sjá hvernig þeim tekst að glíma við Laugaveginn í dag.

Alls eru 356 hlauparar skráðir til keppni í ár 105 konur og 251 karl. Aldrei hafa fleiri verið skráðir til þátttöku í Laugavegshlaupinu en nú. Íslenskir þátttakendur eru 210 talsins og frá öðrum löndum 146. Fjölmennastir eru Bandaríkjamenn eða 29, þá Þjóðverjar sem eru 17 talsins og þriðja fjölmennasta þjóðin eru Kanadamenn sem eru 16 skráðir til þátttöku. Þátttakendur í hlaupinu eru af 28 mismunandi þjóðernum.

66% þeirra sem taka þátt í Laugavegshlaupinu í dag hafa aldrei hlaupið það áður. 34% hlaupara hafa tekið þátt í hlaupinu áður og sumir hverjir margoft. Gottskálk Friðgeirsson og Höskuldur Kristvinsson eru reynslumestir hlauparanna en þeir eru að taka þátt í 14. sinn. Þá er Ívar Auðunn Adolfsson að taka þátt í 11.sinn og Helgi Kristinn Marvinsson í 10. sinn. Aldur þátttakenda er frá 20 ára til 75 ára en fjölmennasti aldurshópurinn eru hlauparar á aldrinum 40-49 ára og 30-39 ára.

Frá ræsingu Laugavegshlaupsins í Landmannalaugum í fyrra.
Frá ræsingu Laugavegshlaupsins í Landmannalaugum í fyrra. mbl.is/Eva Björk Ægisdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert