Ekki ljóst hvar maðurinn féll

Maðurinn var fluttur með þyrlu á Landspítalann í Fossvogi í …
Maðurinn var fluttur með þyrlu á Landspítalann í Fossvogi í kvöld. mbl.is/Þorvaldur Örn Kristmundsson

Líðan göngumannsins sem fannst slasaður í Hesteyrarfirði í dag er stöðug og hann ekki í lífshættu, að sögn lækni á bráðamóttöku Landspítala. Talið er að maðurinn hafi fallið og eftir það reynt að komast niður á Hesteyri. Bakpokinn hans hefur ekki fundist.

Maðurinn, sem er erlendur, var einn á ferð og lagði af stað frá Hlöðuvík í morgun, á leið til Hesteyrar. Síðdegis gekk hópur göngufólks fram á hann þar sem hann lá slasaður og meðvitundarlítill í um klukkustundar göngufjarlægð frá Hesteyri.

Kallað var eftir aðstoð björgunarsveita og hlúð að manninum á staðnum uns þyrla Landhelgisgæslunnar kom og sótti hann. Að sögn Halldórs Óla Hjálmarssonar, í svæðisstjórn björgunarsveita á Vestfjörðum, gat maðurinn tjáð sig eitthvað við björgunarsveitarmenn. Svo virðist sem honum hafi skrikað fótur í snjóskafli og fallið niður einhverja hæð. 

Ekki er vitað nákvæmlega hvar maðurinn datt né úr hve mikilli hæð. Hann var ekki með bakpoka á sér þar sem hann fannst og hefur pokinn ekki fundist. Virðist sem hann hafi skilið búnaðinn við sig reynt að koma sér lemstraður og rænulítill til byggða, uns honum þraut kraftur.

Sjá fyrri fréttir mbl.is:

Göngumaðurinn fluttur á sjúkrahús

Líklega slasaður eftir fall

Sækja slasaðan göngumann

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert