Meta skemmdirnar í dag

Vopnafjörður.
Vopnafjörður. Jón Sigurðarson

„Fulltrúar tryggingafélaganna hafa verið að skoða málin og meta aðstæður,“ segir Þorsteinn Steinsson, sveitastjóri Vopnafjarðarhrepps, en eldur kviknaði í kjörbúðinni Kauptúni í bænum í nótt. Miklar skemmdir urðu á innbúi verslunarinnar, en í sama húsi er einnig lyfsala og vínbúð. „Við erum semsagt bæði að meta aðstæður og kanna hvert við getum snúið okkur. Við getum afgreitt lyf í bráðri neyð en eins og staðan er núna er lyfsalan bara lokuð.“

Að sögn Þorsteins lítur ekki út fyrir að lager lyfsölunnar hafi skemmst mikið í eldinum. „Það gætu þó verið reykskemmdir sem erfitt er að meta með skýrum hætti í dag. Fyrst og fremst þarf að meta skemmdirnar í öllu  húsinu.“

Að sögn Þorsteins var mesti bruninn í kjörbúðinni en lyfsalan slapp að miklu leyti. Er þó smávægilegt sót á lager og í versluninni en þar sem lyfin eru vel pökkuð inn er hægt að gera ráð fyrir því að skemmdirnar þar séu litlar. 

Þó er þetta óþægileg óvissa fyrir íbúa bæjarins, enda er langt í næstu kaupstaði. Næstu kaupstaðir eru Þórshöfn og Egilsstaðir, en Þorsteinn bendir á að um 70 km eru milli Vopnafjarðar og Þórshafnar og 135 milli Vopnafjarðar og Egilsstaða. „Þetta skýrist allt á næstu dögum en þetta er auðvitað gífurlega óþægileg staða fyrir íbúana og samfélagið hér.“

„Eina kjörbúðin eldi að bráð“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert