Persónuvernd skoðar LÖKE-reglur

Ríkislögreglustjórinn merkið á húsinu að utann
Ríkislögreglustjórinn merkið á húsinu að utann mbl.is/Árni Sæberg

„Okkur barst bréf frá lögreglunni þann 3. júlí þar sem er að finna reglur um aðgang að lögreglukerfinu. Þetta eru skýringar sem Persónuvernd þarf að fara yfir,“ segir Þórður Sveinsson, forstöðumaður lögfræðisviðs Persónuverndar.

Persónuvernd gerði úttekt á öryggi aðgangsstýringa á lögreglukerfi Ríkislögreglustjóra (LÖKE) árið 2010. Gefin var út úttektarniðurstaða árið 2010 þar sem lögreglunni var uppálagt að grípa til vissra aðgerða, þar á meðal móta verklag um innra eftirlit. Þetta tengist því, að það sé fylgst með því hvernig starfsmenn nota kerfið, en það fellur undir innra eftirlit.“

Persónuvernd taldi síðan að bið væri á því að þessum tilmælum væri fylgt eftir. „Ákvörðun var því gefin út árið 2012 þar sem þetta var áréttað. Síðan þá höfum við átt í bréfaskiptum við lögregluna þar sem við höfum kallað eftir gögnum um þetta atriði og okkur barst svo bréf frá lögreglunni þann 3. júlí,“ segir Þórður. 

Geta þurft að gera skil á mörg þúsund fyrirspurnum

Í viðmóti lögreglukerfis Ríkislögreglustjóra er ekki hægt að skrá inn ástæðu uppflettingar. Þess í stað segir í reglum um notkun LÖKE að starfsmenn geti síðar verið spurðir út í ástæðu fyrirspurnar í kerfinu. Þetta getur valdið lögreglumönnum vandkvæðum enda geta þeir í störfum sínum þurft að fletta upp fleiri þúsund fyrirspurnum á ári.

Að sögn Þórðar er að finna einmitt slíkt viðmót í skráningarkerfinu sem notað er af heilbrigðisstarfsmönnum á Landspítalanum  „Komið hefur fram af hálfu Landspítalans að þar eiga menn að skrá fyrirfram hvers vegna þeir skoði gögn um tiltekna sjúklinga, en viðmótið býður upp á það. Til dæmis verður að skrá hvort uppflettingin sé vegna meðferðar eða vísindarannsóknar. Það er bundið í alla leyfisskilmála frá Persónuvernd að það skuli gert við framkvæmd slíkra rannsókna. Landspítalanum er líka gert að starfrækja eftirlitsnefnd sem fer yfir uppflettingar og gerir úttektir á því hvort starfsfólkið hafi fylgt reglum þar að lútandi,“ segir Þórður.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert