Segir frá pólitískri óvissuferð

Margrét - Að vera á þingi á þessum tíma í …
Margrét - Að vera á þingi á þessum tíma í Íslandssögunni var svolítið eins og að lenda í sjóslysi; á hverjum degi var þungur róðurinn, segir Margrét, sem fjármagnar nú bókaútgáfu á Karolina Fund. Margrét Tryggvadóttir

Margrét Tryggvadóttir, bókmenntafræðingur og fyrrum alþingismaður, fjármagnar nýja bók sína, Útistöður, í gegnum íslensku hópfjáröflunarsíðuna Karolina Fund. Þar getur hver sem er sótt um að fjármagna ýmiskonar verkefni eða styrkt nýsköpun af einhverju tagi, í þessu tilfelli reynslusögu Margrétar af pólitískri óvissuferð á árunum 2009-2013, eins og bókinni er lýst.

„Ég er búinn að verja frítíma mínum uppá síðkastið í að skrifa bók og mig langaði ljúka því endanlega sem ég hef verið að gera síðustu ár. Þetta er eitthvað sem ég stend og fell með sjálf. Ég hef skrifað og gefið út áður en aldrei upp á eigin spýtur líkt og núna,“ segir Margrét í samtali við mbl.is.

Allt eða ekkert

Söfnunin fór af stað í morgun og stefnir hún að 2.500 evrum, eða um 380 þúsund króna, fjárhæð. „Mér finnst þetta fara ágætlega af stað. Allavega er góðs viti að einhverjir sem eru ekki náskyldir mér séu búnir að styrkja verkefnið.“

Ef markmiðið næst ekki fær verkefnið engan styrk og enginn er rukkaður. „Það er allt eða ekkert á þessari síðu. Síðan virkar hún þannig að aðstandendur hennar fá peninginn ekki í hendurnar, heldur fer hann í gegnum Borgun og aðstandendur Karolina fund fá bara lága prósentu með hliðarsamning við þá. Þetta er ansi skothelt kerfi.“

Tíminn á þingi eins og sjóslys

Margrét byrjaði að vinna texta bókarinnar á meðan hún var enn á þingi, þótt ekki hafi verið sérstakt markmið að skrifa hann sem heildstæða bók. „Ég er eiginlega sískrifandi og hugsa mikið í gegnum ritað mál. Það er mín leið til að skilja og greina hlutina. 

Að þingstörfum loknum þurfti hún að ná betur utan um það sem hafði átt sér stað. „Að vera á þingi á þessum tíma í Íslandssögunni var svolítið eins og að lenda í sjóslysi; á hverjum degi var þungur róðurinn. Svo þegar aftur hægist á hlutunum er gott að púsla aftur saman. Að hluta til gerði ég þetta fyrir sjálfa mig til að ná betri yfirsýn.“

„Svo fór ég að spyrjast fyrir í kringum mig og athuga hvort þetta ætti erindi til lesenda í dag. Flestir sem ég spurði voru á einu máli um að svo væri. Við erum enn að glíma við hrunið á hverjum degi og enn eru stofnaðir nýir stjórnmálaflokkar. Við gerðum fullt af mistökum og mér fyndist leiðinlegt að horfa upp á aðra gera þau aftur.“

Meiri upplýsingar um bókina og fjármögnun hennar má sjá hér.

Útistöður - Við erum enn að glíma við hrunið á …
Útistöður - Við erum enn að glíma við hrunið á hverjum degi og enn eru stofnaðir nýir stjórnmálaflokkar. Við gerðum fullt af mistökum og mér fyndist leiðinlegt að horfa uppá aðra gera þau aftur. Margrét Tryggvadóttir
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert