Var orðinn mjög kaldur og þrekaður

Kajakræðarar. Myndin er úr safni.
Kajakræðarar. Myndin er úr safni. Árni Sæberg

Íslenskur kajakræðari komst í hann krappan í gærkvöldi út af Munaðarnesi í Árneshreppi. Hann var á ferð með tveimur öðrum ræðurum og lentu þeir í vandræðum í ölduróti. Birgir Guðmundsson kom ræðaranum til bjargar, en hann var orðinn mjög kaldur og þrekaður.

Mennirnir þrír lögðu af stað í gær og voru á leið úr Ingólfsfirði út landið við Munaðarnes þegar heimamenn fóru að svipast um eftir þeim. „Menn höfðu haft áhyggjur af þeim og þegar farið var að athuga með þá kom þetta í ljós,“ segir Birgir í samtali við mbl.is.

Nokkuð hvessti þegar líða fór á daginn og hvolfdu mennirnir kajökunum. Tveir þeirra komust í land en sá þriðji var ekki svo heppinn. Birgir fór út á smábáti og aðstoðaði manninn, sem hékk á kajaknum. 

„Hann var orðinn mjög kaldur og gjörsamlega búinn á því,“ segir Birgir, aðspurður um ástand mannsins þegar hann kom að honum, en maðurinn var klæddur þurrgalla. Birgir náði honum upp í bátinn og fór með hann í land þar sem hann hlaut aðhlynningu hjá björgunarsveitarfólki. „Hann bar sig vel þegar það var kominn hiti í hann.“

Ekki er vitað hversu lengi maðurinn var í sjónum en Birgir telur víst að hann hefði ekki náð að hanga miklu lengur á kajaknum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert