„Fólk bara velur“

Leikskólabörn. Mynd úr safni.
Leikskólabörn. Mynd úr safni. Þórður Arnar Þórðarson

„Stefnan hjá okkur hefur alltaf verið sú að sjá vel um barnafólk,“ segir Anna Magnea Hreinsdóttir, leikskólafulltrúi Garðabæjar, í samtali við mbl.is um ánægju fjölskyldufólks í sveitarfélaginu. „Við höfum til dæmis bætt við ungbarnaleikskólum og lagt áherslu á að gera vel við dagforeldra.“ Anna segir að metnaður Garðabæjar gagnvart fjölskyldum skili sér í ánægju íbúa.

Það sem gefur Garðabæ helsta sérstöðu í leikskólamálum er að allir leikskólar í Garðabæ eru opnir allt sumarið og velur fjölskyldan sér þann tíma sem hún vill taka í sumarfrí. Til samanburðar eru allir leikskólar sem reknir eru af Reykjavíkurborg lokaðir í fjórar vikur samfleytt yfir sumartímann. Formaður leikskólanefndar Garðabæjar telur að fleiri sveitarfélög gætu gert það sama. 

Lykilatriði að kostnaður sé sá sami

Í Garðabæ eru reknir tveir leikskólar fyrir börn á aldrinum 12 mánaða til 24 mánaða eða svokallaðir ungbarnaleikskólar. Þeir heita Sunnuhvoll og Litlu-Ásar. Jafnframt eru gerðir þjónustusamningar við dagforeldra sem fela í sér að greiðsla foreldra er fest við gjaldskrá leikskóla. Foreldrar borga því það sama hvort sem barnið er í leikskóla eða hjá dagforeldrum.

„Fyrir okkur er lykilatriði að kostnaður sé sá sami,“ segir Anna. „Það á að vera val hvort börn séu hjá dagforeldri eða ungbarnaleikskóla. Þetta er búið að vera svona í sjö eða átta ár.“

Metnaðurinn skilar sér í ánægju íbúa

Aðspurð segir Anna að metnaður bæjarfélagsins gagnvart barnafólki skili sér í góðum þjónustukönnunum. „Daggæslan í Garðabæ lendir alltaf í toppsæti í könnunum. Það er vel hlustað á raddir íbúa og reynt að mæta þeirra þörfum. Við viljum laða að okkur fjölskyldufólk og að  því líði vel hjá okkur.“

Rúmlega 94% foreldra í Garðabæ voru mjög eða frekar ánægð með daggæslu barns síns í árlegri viðhorfskönnun Capacent sem gerð var í nóvember. Jafnframt töldu 88% svarenda að barni sínu liði mjög eða frekar vel í daggæslunni.

Mánaðargjald á ungbarnaleikskóla í Garðabæ, miðað við átta tíma dagvistun, er um 35 þúsund krónur. Til samanburðar eru dæmi um að foreldrar í Reykjavík greiði um 55 þúsund krónur fyrir sömu þjónustu.

Leikskólunum ekki lokað á sumrin

Sigurður Guðmundsson, formaður leikskólanefndar Garðabæjar, segir að starfsemi leikskólanna í sveitarfélaginu gangi jafnvel á sumrin og á veturna, þrátt fyrir að skólanum sé ekki lokað.

„Krakkarnir þurfa að taka fjögurra vikna frí, en þau velja hvenær yfir sumarið þau gera það. Þetta er búið að vera svona í allavega tuttugu ár,“ segir Sigurður. Starfsmenn leikskólanna í Garðabæ fá sín sumarfrí rétt eins og aðrir og eru ráðnir inn sumarstarfsmenn sem leysa hina af.

Aðspurður segist Sigurður ekki vita af hverju fleiri sveitarfélög taki ekki upp sama skipulag og Garðabær á sumrin. „Það er samt ágætt að hafa einhverja sérstöðu. Eflaust eru fleiri sveitarfélög sem gætu gert þetta.“

Sigurður bætir við að í Garðabæ hafi lengi verið lögð áhersla á að fólk hafi val. „Fólk velur sér frítíma á sumrin, en velur sér líka skóla. Krakkarnir fara ekkert endilega í sinn hverfisskóla, hvorki grunnskóla né leikskóla, fólk bara velur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert