Fleiri vilja evrópskt sambandsríki

AFP

41% íbúa ríkja Evrópusambandsins vill að sambandið breytist í sambandsríki, samkvæmt niðurstöðum nýrrar skoðanakönnunar fyrir framkvæmdastjórn þess. 34% eru því hins vegar andvíg. Talsvert skiptar skoðanir eru þó á því eftir ríkjum. Mun meiri stuðningur er við þá skoðun að þörf væri á sameinaðri Evrópu í dag. 77% segjast því sammála, þar af 41% frekar sammála og 36% mjög sammála. 

Fleiri eru einnig á því en færri í ríkjum ESB að sambandið ætti að taka fleiri ákvarðanir en það gerir í dag, samkvæmt könnuninni sem nefnist Eurobarometer, eða 48%. Þar af eru 34% frekar sammála en 14% mjög sammála. 40% eru hins vegar ósammála þeirri skoðun og þar af 24% frekar ósammála en 16% mjög ósammála. Þegar spurt er hvort ESB ætti að hafa eina sameiginlega utanríkisstefnu fyrir öll ríki sambandsins segjast 62% hlynnt því en 25% andvíg innan þess. Einungis meirihluti Svía, Breta og Dana er því ósammála.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert