Flýta sér heim vegna hungurs

Fimm dúfur etja kappi á laugardaginn.
Fimm dúfur etja kappi á laugardaginn.

Fimm dúfur munu etja kappi í Suðurlandskeppni Bréfdúfnafélags Íslands sem fer fram á laugardaginn. Fuglarnir fljúga frá Vestmannaeyjum, upp á land og þarf hver þeirra að koma sér heim þar sem eigendurnir bíða með mat fyrir þá.

„Þetta verður mjög hröð keppni,“ segir Ragnar Sigurjónsson, dúfnaþjálfari,  og bætir við að fuglarnir séu í góðu formi fyrir keppnina. Allt eru þetta ungar, þ.e. fuglar sem fæddust á þessu ári.  Þátttakendurnir búa á fimm stöðum á Suðurlandi, í Brandshúsum við Selfoss, á Eyrarbakka, í Hveragerði, í Laugarási og á Selfossi.

Ragnar útskýrir að fuglarnir rati alltaf heim en keppnin snúist um að fuglarnir komi sér heim á sem stystum tíma. „Þetta snýst mikið um mat, fuglarnir vita að það er allt tilbúið heima,“ segir Ragnar.

Í vikunni fyrir keppni fá fuglarnir um 35 grömm á dag, en það er talinn vera hæfilegur dagsskammtur fyrir dúfu. Á föstudegi fyrir keppnina munu fuglarnir sennilega aftur á móti fá um 15 grömm og vilja þeir því eflaust flýta sér heim sem fyrst til að fá eitthvað í svanginn.

Þátttakendurnir eiga allir nokkra fugla en þeir þurfa að vanda valið fyrir keppnina og finna út hvaða fugl hentar best í keppnina og þá er mikilvægt er að kunna að lesa fuglana vel.

Að öllu óbreyttu fer keppnin fram á laugardaginn en veðrið þarf þó að vera hagstætt að sögn Ragnars. Langt er síðan þessi leið var flogin í keppni, þ.e. frá Vestmannaeyjum og upp á land.

Heimasíða Bréfdúfnafélags Íslands

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert