Kristín svarar ummælum Ólafs

Kristín Þorsteinsdóttir
Kristín Þorsteinsdóttir mbl.is

Kristín Þorsteinsdóttir, útgefandi og aðalritstjóri fréttastofu 365 miðla, hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna atvika undanfarinna daga í fyrirtækinu. Þar segist hún hafa verið ráðin til þess að efla fréttastofu 365, auka hlut kvenna og standa vörð um sjálfstæði blaða- og fréttamanna. 

Þá talar Kristín um yfirlýsingu sem Ólafur Stephensen, fyrrverandi ritstjóri Fréttablaðsins, sendi frá sér í gær þar sem hann talar um að ætlun stjórnenda 365 hafi verið að þrengja að sjálfstæði hans. Kristín segir hann hafa gefið í skyn í leiðara sínum á mánudaginn að hann hafi ritstýrt Fréttablaðinu í fjögur og hálft ár „undir eilífum þrýstingi vondra eiganda.“ Kristínu þykir undarlegt að hann skuli hafa látið bjóða sér slíkt. „Ef eitthvað væri hæft í orðum Ólafs þá hefði umræddur leiðari ekki litið dagsins ljós. Af skrifunum má ráða að sá, sem trúir á draug, hann finnur draug,“ segir í yfirlýsingu Kristínar.

Jafnframt talar Kristín um dagskrárkynningu sem hún tók út af Vísi í síðustu viku. Í hennar huga var dagskrárkynning þessi á mörkum þess að vera auglýsing, og taldi hún þess vegna óviðeigandi að birta hana á vefnum. Hún vísar í siðareglur 365 þar sem segir: „Til að almenningur þurfi aldrei að vera í vafa um hlutleysi umfjöllunar skal gera skýran greinarmun á auglýsingum og öðru efni.”

Hvernig Kristín ætlar að efla fréttastofuna og auka hlut kvenna er ekki ljóst, en ekki hefur náðst í hana í dag þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir.

 Frétt mbl.is: Mikil óvissa á fréttastofu 365

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert