Mikil óvissa á fréttastofu 365

Mikil uppstokkun hefur átt sér stað á 365 miðlum.
Mikil uppstokkun hefur átt sér stað á 365 miðlum. mbl.is/Heiðar

Mikil uppstokkun hefur átt sér stað á 365 miðlum á síðustu dögum. Samkvæmt starfsmönnum fréttastofunnar sem mbl.is hefur náð tali af ríkir mikil óvissa um framhaldið. Starfsmenn hafa ekki verið upplýstir um næstu skref eða hvort um fleiri breytingar á fréttastofunni verði að ræða.

Mikael Torfasyni var sagt upp störfum sem aðalritstjóra 365 miðla á mánudag og lét Ólafur Stephensen af störfum sem ritstjóri Fréttablaðsins í gær.  

Samkvæmt tilkynningu frá 365 miðlum á mánudag mun Sigurjón M. Egilsson koma til með að taka við starfi fréttaritstjóra 365 miðla. Sigurjón er umsjónarmaður útvarpsþáttarins Sprengisands á Bylgjunni og hefur einnig starfað sem fréttastjóri Fréttablaðsins. Kristín Þorsteinsdóttir tekur við starfi aðalritstjóra, en hún hefur undanfarið sinnt starfi útgefanda 365 miðla. Stutt er síðan Sævar Freyr Þráinsson tók við sem forstjóri 365, en hann tók við starfi Ara Edwald. 

Brotthvarf Ólafs sló starfsmenn

Breki Loga­son, frétta­stjóri á Stöð 2, segir brotthvarf Ólafs hafa slegið starfsmenn fréttastofunnar, en um 30–40 starfsmenn komu saman fyrir utan heimili Ólafs í gær til að kveðja hann og Mikael. „Ólafur hefur verið ótrúlega vel liðinn hérna og í öllum okkar miðlum. Þótt hann hafi verið ritstjóri Fréttablaðsins þá hefur hann lagt mikið af mörkum í aðra miðla hérna líka; Stöð 2 fréttir, Vísi, Bylgjufréttir og annað. Það er líka mikið af fólki hérna sem hefur leitað til hans með ýmis mál, enda með mikla reynslu og góður maður,“ segir Breki.

Á samkomunni heima hjá Ólafi las Mikael upp leiðara sem Ólafur skrifaði í Fréttablaðið í gær, þar sem honum varð tíðrætt um sjálfstæði fjölmiðla gagnvart peningalegu valdi. Í yfirlýsingu frá Ólafi sem hann sendi frá sér í gær segir hann meðal annars atburði á fréttastofu 365 undanfarna daga hafa orðið til þess að hann geti ekki litið öðruvísi á en að ætlunin sé að þrengja að sjálfstæði hans sem ritstjóra.

„Ástæðan fyrir því að hann hætti eru þessi blaðamennskuprinsipp sem við viljum öll verja og standa fyrir. Það var það sem ég held að fólk hafi tengt við,“ segir Breki. Hann segir óljóst hver taki við starfi Ólafs, „en það skiptir auðvitað máli hver er ritstjóri á stærsta blaði landsins,“ segir hann.

Ekki hefur náðst í Kristínu Þorsteinsdóttur þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir. 

Frétt mbl.is: Ólafur hættur sem ritstjóri Fréttablaðsins

Frétt mbl.is: Mikael Torfasyni sagt upp

Breki Logason, fréttastjóri á Stöð 2.
Breki Logason, fréttastjóri á Stöð 2. mbl.is
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert