Allar dúfurnar skiluðu sér heim

Bréfdúfur
Bréfdúfur Morgunblaðið/RAX

Síðastliðinn laugardag stóð Suðurlandsdeild Bréfdúfnafélags Íslands fyrir keppni þar sem bréfdúfur kepptu um það hver þeirra skilaði sér á áfangastað á bestum tíma. Alls var 64 fuglum sleppt í Vestmannaeyjum og heima biðu eigendur dúfnanna eftir að þær skiluðu sér. „Keppendur voru fjórir og fór fyrsta sætið til Helga Bergvinssonar á Selfossi, í öðru sæti varð Hlöðver Þorsteinsson á Eyrarbakka og í því þriðja varð Þór Ólafur í Hveragerði,“ segir Ragnar Sigurjónsson dúfnaþjálfari sem sjálfur var í fjórða sæti með sínar dúfur.

Þær dúfur sem lengst flugu fóru 77 kílómetra leið sem er frá Vestmannaeyjum til Hveragerðis en meðalhraðinn var um 800 metrar á mínútu sem er heldur hægara en við bestu veðurskilyrði en þá geta þær farið um 1200 metra á mínútu. Ragnar býr í Gaulverjabænum, rétt utan við Selfoss og kom fyrsta dúfan hans heim klukkan 14:47 en þeim var sleppt í Eyjum klukkan 12:30.

Að þessu sinni voru ekki eingöngu bréfdúfur að keppa heldur voru bjargdúfur, villtar dúfur, með í keppninni í fyrsta skipti hér á landi. „Þær skiluðu sér allar heim en þær voru ekkert á góðum tíma. En okkur fannst mjög merkilegt að þær skyldu skila sér,“ segir Ragnar. Ratvísi dúfna af villtum stofni ætti því ekki að draga í efa.

„Þær eru náttúrulega ekki bréfdúfur en bréfdúfur fljúga mjög hratt. Þetta er meiri þolraun fyrir bjargdúfurnar af því þær hafa aldrei flogið yfir haf áður,“ segir Ragnar Sigurjónsson um Suðurlandskeppnina.

Frétt mbl.is: Flýta sér heim vegna hungurs

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert