„Þetta er sláandi munur“

Háskóli Íslands.
Háskóli Íslands. Ómar Óskarsson

„Þetta er sláandi munur og það hlýtur að vera í forgangi hjá ráðamönnum að bæta úr þessu,“ segir Jórunn Pála Jónasdóttir, formaður Landssamtaka íslenskra Stúdenta, um þá staðreynd að Ísland fjárfestir minnst allra Norðurlandanna í menntun og um 50% minna í háskólamenntun miðað við skýrslu OECD.

Jórunn Pála segir að sín reynsla sé sú að mikill vilji sé hjá kennurum almennt fyrir því að auka gæði kennslu og taka upp fjölbreyttari kennsluhætti en það strandi alltof oft á ónógum fjármunum. Hún segir þennan mun á Íslandi og hinum Norðurlöndunum ekki koma sér á óvart. „Nei, þetta hefur legið fyrir í þó nokkurn tíma en það er hrikalegt að sjá það svart á hvítu að á meðan Norðurlöndin virðast vera að bæta í og leggja áherslu á betra menntakerfi virðist þróunin vera í hina áttina hér á landi.“

Hún segir eðlilegt að miða okkur við hin Norðurlöndin enda hafi þeir verið að koma vel út og séu meðal þeirra eftirsóttustu í Evrópu. „Að mínu mati er forgangsröðun í þágu menntunar forgangsröðun í þágu þjóðar en stjórnvöld virðast ekki deila þeirri skoðun með mér. Það er orðið ansi þreytt að heyra hrunið og stöðu þjóðarbúsins nýtta sem afsökun fyrir niðurskurði. Sérstaklega þegar við lítum til þess hvers Finnar gerðu í kjölfar efnahagsþrenginga á tíunda áratugnum þegar peningum var dælt í menntakerfið þar í landi. Sá þáttur reyndist veigamikill í að koma fótum undir efnahagslífið að nýju. Hágæðamenntakerfi er forsenda fyrir velmegun í þjóðfélaginu og því köllum við í framkvæmdastjórn Landssamtaka íslenskra stúdenta eftir að stjórnvöld endurskoði áherslur sínar í fjárlögum næsta árs og leggi aukna fjármuni í háskólakerfið.“

Frétt mbl.is: Ísland fjárfestir minnst í menntun

Jórunn Pála Jónasdóttir.
Jórunn Pála Jónasdóttir.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert