Héldu börnunum inni vegna mengunar

Íbúar á Djúpavogi á Austurlandi hafa fundið fyrir gasmengun í dag sem barst frá eldgosinu í Holuhrauni. Mengunin helltist yfir í morgun og náði hámarki í hádeginu, en nú er farið að létta til. Fólk heldur ró sinni og á leikskólanum Bjarkatúni var ákveðið að halda börnunum innandyra.

Brennisteinslykt hefur fundist í bænum og segist Ólafur Björnsson, sem sendi meðfylgjandi ljósmynd, fundið fyrir sviða í augum, nefi og hálsi. Hann bendir á að engir mengunarmælar séu í bænum og því ekki hægt að segja til um það hversu mikil hún var.

Taka þessu eins og hverju öðru hundsbiti

Varðstjóri á lögreglustöðinni á Djúpavogi sagði að mengunin hefði verið mikil í morgun en að að hún hefði náð hámarki í hádeginu. Bláminn í fjöllunum í kring væri orðin mun minni en hann var, en í morgun sást ekki til fjallanna í Álftafirði. 

Aðspurður segist hann ekki hafa fundið fyrir óþægindum vegna mengunarinnar. Hann tekur fram að menn geti ekkert gert við þessu og verði að taka þessu eins og hverju öðru hundsbiti. „Við getum ekki kennt ríkisstjórninni um þetta,“ bætti hann við í gamansömum tón.

Fundu brennisteinslykt

Þórdís Sigurðardóttir, aðstoðarleikstjóri á Bjarkatúni, segir í samtali við mbl.is að þetta sé í fyrsta sinn sem gasmengunar vegna gossins verði vart í bænum. Ákveðið var að hafa börnin inni og hafa alla glugga lokaða. Þórdís segir að þar af leiðandi hafi börnin og starfsfólk leikskólans ekki fundið fyrir neinum óþægindum. Hún segir hins vegar að eiginmaður hennar, sem vinni mikið utandyra, hafi fundið brennisteinslykt. 

Þórdís segir að bæjarbúar á Djúpavogi hafi sloppið að mestu við mengunina. „Þetta er fyrsti dagurinn sem við höfum þurft að hafa krakkana inni út af mengun,“ segir hún.

Mjög hefur dregið úr menguninni sem náði hámarki í hádeginu. „Það er hægt að sjá fjöllin núna,“ segir Þórdís um stöðuna nú á þriðja tímanum.

Spáin flókin vegna lægðagangs

Fram kemur á vef Veðurstofu Íslands að búist sé við lægðagangi yfir landið með tilheyrandi breytingum í vindátt. Spáin verði því flókin og erfitt geti verið að henda reiður á því hvar mengunin sé og hvert hún stefni. Það jákvæða sé að sífelldir snúningar í vindátt ættu að þýða að gasið staldri ekki lengi við á hverjum stað. 

Eftir helgi er síðan búist við suðaustan- og sunnanátt verði ríkjandi og er útlit fyrir hvassan vind með köflum.

Spáin er svohljóðandi:

Föstudagur: Stíf vestan- og norðvestanátt. Búast má við gasmengun austur af eldstöðinni fyrripart dags en til suðausturs um kvöldið. Mengunarsvæðið nær u.þ.b. frá Fáskrúðsfirði í norðri og suður yfir Hornafjörð.

Laugardagur: Astlæg átt, 5-10 m/s. Búast má við gasmengun á norðanverðu hálendinu og á Norðurlandi frá Húsavík og vestur í Skagafjörð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert