Hafði ekki spáð fyrir um veðrið

Sigríður Klingenberg spádíva
Sigríður Klingenberg spádíva mbl.is/Kristinn Ingvarsson

„Allir sem hér búa vita hvaðan þetta trampólín kom,“ segir Sigríður Klingenberg spákona og íbúi á Álftanesi, en áðurnefnt trampólín tókst á loft og hafnaði utan um ljósastaur og rafmagnskassa við Skólatún í veðurofsanum sem gekk yfir landið suðvestanvert fyrr í dag.

Að sögn Sigríðar fauk trampólínið utan í nokkrar kyrrstæðar bifreiðar áður en það fann sér stað við staurinn og olli það því talsverðum skemmdum. „Bíllinn minn er náttúrulega allur í klessu og svo fór þetta utan í fleiri bíla. Þetta er náttúrulega alveg ótrúlega leiðinlegt fyrir manneskjuna sem lendir í þessu því öll getum við gleymt að festa niður hluti,“ segir hún.

Aðspurð segir Sigríður ferðalag trampólínsins vera hreint út sagt ótrúlegt. „Þetta fauk svo hátt að það er alveg með ólíkindum. Trampólínið fór alla leið upp á ljósastaurinn og fauk svo aftur niður þar sem það festist.“

- Varst þú búin að spá fyrir um óveðrið eða ferðalag trampólínsins?

„Ég var bara ekki búin að sjá nokkurn skapaðan hlut fyrir. Þetta kom mér því algerlega í opna skjöldu,“ segir spákonan.

Vert er að brýna fyrir fólki að huga vel að lausum munum því útlit er fyrir áframhaldandi hvassviðri næstu daga.

Frétt mbl.is: Trampólín utan um ljósastaur

Frétt mbl.is: Lægðir ráða ríkjum í vikunni

Trampólín tókst á loft í dag.
Trampólín tókst á loft í dag. Ljósmynd/Magnús Ásmundsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert