„Mér finnst þetta bara svo óréttlátt“

Hjónin greiddu upp bílalánið en fá ekki endurútreikning á láninu …
Hjónin greiddu upp bílalánið en fá ekki endurútreikning á láninu þar sem þau höfðu ekki alltaf greitt á gjalddaga. mbl.is/Malín Brand

„Þetta er svona klassísk saga. Ég kaupi bíl með bílaláni hjá Lýsingu fyrir hrun. Svo kemur hrunið og þá hækka lánin um helming. Síðan er gerður endurútreikningur og þá lækkaði lánið eitthvað. Eitthvað seinna fellur dómur í Hæstarétti um endurútreikning lána en í millitíðinni greiðum við upp lánið, seljum bílinn og gerum alveg upp við Lýsingu,“ segir Katrín Björk Eyjólfsdóttir.

Telja sig ekki þurfa að endurreikna lánið

Að sögn Katrínar heyrðu hún og maður hennar ekkert frá Lýsingu í sambandi við endurreikning á láninu. „Við höfðum reglulega samband við Lýsingu en fengum aldrei nein svör. Svo fórum við þangað fyrir um einum og hálfum mánuði síðan en þeir gátu ekki svarað okkur öðruvísi en skriflega. Svo núna fyrir nokkrum dögum fengum við svar í tölvupósti.“

Í tölvupóstinum sem Katrín fékk var vísað í dóm Hæstaréttar og sagt að þar sem orðið hafði vanskil af láninu á sínum tíma þá telji Lýsing sig ekki þurfa að endurreikna lánið. „Við greiddum nokkra gjalddaga of seint. Stundum, sérstaklega eftir hrun, dróst greiðslan um mánuð og þá borguðum við tvo í einu. En af því greiddum við auðvitað dráttarvexti. Lýsing heldur því fram þau hafi orðið fyrir kostnaði vegna lánsins en skýra það ekkert frekar,“ segir Katrín.

Finnst þetta óréttlátt

Katrín er ekki ánægð með  þessi vinnubrögð, enda hefur hún borgað allt af láninu og dráttarvexti fyrir þau skipti sem hún borgaði of seint. „Lýsing segir að það hafi hlotist kostnaður af láninu sem þeir segja ekkert hver er. Þegar við frestum því að borga þá segja þeir að hlotist hafi kostnaður sem ég get alveg skilið. En þá borgum við dráttarvexti og ég hélt að það væri til þess að dekka allan aukakostnað.“

Að sögn Katrínar mun hún ekki leita lögfræðiaðstoðar vegna málsins. Hefur hún einfaldlega ekki efni á því. „Mér finnst þetta bara svo óréttlátt, ég skulda ekki neitt, er búin að borga allt og hef alltaf gert.“

Undantekningarreglan á ekki alltaf við

Þór Jónsson, upplýsingafulltrúi Lýsingar, segist ekki tjá sig um mál einstakra viðskiptavina auk þess sem hann viti ekki um hvern sé að ræða eða nákvæmlega hvert umkvörtunarefnið sé. Almennt geti hann þó sagt að vanefndir hafi í ákveðnum tilvikum í för með sér að undantekningarregla kröfuréttar um fullnaðarkvittun eigi ekki við.

Það þýðir að réttmæt krafa á hendur skuldara um viðbótargreiðslu glatast ekki eins og í þeim tilvikum sem fullnaðarkvittun þykir eiga við.

Skilyrði að greiðslur séu inntar af hendi á réttum tíma

Segir Þór að eitt af skilyrðunum fyrir beitingu fullnaðarkvittunar sé að greiðslur séu inntar af hendi á réttum tíma og greiðsluferlinu ekki verið raskað. Þannig hafi dómstólar gert greinarmun á þeim sem borguðu skilvíslega af samningi sínum og hinum sem gerðu það ekki.

 „Við vonumst til að fá enn skýrari línur í þessi mál með væntanlegum dómum Hæstaréttar, en hann hefur fallist á að taka til endurskoðunar fullnaðarkvittanamál, sem Lýsing tapaði í héraðsdómi í sumar, og sömuleiðis veitt áfrýjunarleyfi vegna fullnaðarkvittanamáls, sem Lýsing vann, og þar sem reyndi einmitt á það, hvort vanskil skipta máli við beitingu svokallaðar fullnaðarkvittunar,“ segir Þór.

Hér má sjá dómsmálið sem Lýsing tapaði og hér má sjá dómsmálið sem Lýsing vann.

.
. mbl.is/Júlíus
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert