Eftirlitsaðilar eins og „sofandi álfur“

Ásmundur Friðriksson alþingismaður.
Ásmundur Friðriksson alþingismaður. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Enn dynja fréttir á þjóðinni um markaðsmisnotkun. Fólki er brugðið og spyr hvort það sé misnotað. Ég vona svo sannarlega að þessar fréttir séu ekki á rökum reistar, en því miður berast okkur nú á tveggja vikna fresti mjög alvarleg tíðindi um þetta.“

Þetta sagði Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, á Alþingi í dag. Vísaði hann til máls Samkeppniseftirlitsins á hendur skipafélögunum Eimskips og Samskipa. Þar væri um að ræða stóralvarlegt mál og mun stærra en málið varðandi Mjólkursamsöluna. „Misnotkun á markaðsráðandi stöðu er, eins og ég hef sagt áður, glæpur gegn neytendum, lækkar kaupmátt, ráðstöfunartekjur, er í raun þjófnaður. Ég gagnrýni Samkeppniseftirlitið líka harðlega fyrir slæleg vinnubrögð. Mál liggja allt að sjö árum áður en þau eru kláruð í þeirri eftirlitsstofnun. Við þurfum eftirlit sem virkar og er skilvirkt.“

Þingmaðurinn sagði eftirlitsaðila vera „eins og sofandi álfur eða fíll sem kemst ekki úr sporunum. Við þurfum alvöruvakt í Samkeppniseftirlitinu eins og alls staðar í eftirlitskerfinu. Og við þurfum traust í þetta samfélag. Það vantar traust, við þurfum að geta treyst hvert öðru í því sem við erum að gera. Fólkið í samfélaginu þarf að geta treyst fyrirtækjunum, að það sé að borga rétt verð fyrir vöruna. Ég spyr: Er engum treystandi?“

Björn Valur Gíslason, varaþingmaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, tók einnig til máls um skipafélögin og sagði því miður um gamla sögu og nýja að ræða. Íslendingar hefðu mátt búa við misnotkun stórfyrirtækja alltof lengi. Rifja mætti upp ótal dæmi í þeim efnum. Merkilegt væri að fylgjast með viðbrögðum stjórnvalda við markaðsmisnotkun MS. Lausnin í þeim efnum virtist felast í því að einkavæða misnotkunina.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert