Syngur um norðurljósin

Þórsteinn er 18 ára gamall.
Þórsteinn er 18 ára gamall.

„Ég ákvað að prófa að gera eitthvað nýtt og syngja Wrecking Ball með Miley Cyrus. Ég fékk góð viðbrögð en eftir á að hyggja var þetta ekki rétt lag fyrir mig, það var ekki jafn mikill kraftur í því og ég hélt. En ég komst áfram og núna eru undanúrslitin á föstudaginn,“ segir Þórsteinn Einarsson, en hann er kominn í undanúrslit austurríska raunveruleikaþáttarins Die große Chance. Þátturinn er settur upp sem hæfileikakeppni og er sýndur á sjónvarpsstöðinni ORF 1. Þar nýtur hann mikilla vinsælda. 

Þórsteinn, sem er 18 ára gamall, segist alltaf hafa verið mikið fyrir að syngja en að vinir hans hafi skráð hann í þáttinn í gríni. 

„Ég var á djamminu með vinum mínum í Austurríki og þeir ákváðu bara að skrá mig. Ég var ánægður með það en þetta var nú bara brandari í byrjun en ég fór síðan að taka þetta alvarlega þegar að á leið,“ segir Þórsteinn, sem landaði samningi við plöturisann Sony, í kjölfar þáttanna.

Upptaka á plötunni hófst fyrir um mánuði síðan og eru öll lög á henni samin af Þórsteini. „Ég er í upptökum núna í Vín. Það er bara gaman að hafa þennan samning og geta unnið sem tónlistarmaður,“ segir Þórsteinn, en hann útskrifaðist sem matreiðslumaður fyrir um mánuði síðan. „Ég er samt búinn að hengja upp kokkahattinn í bili, söngurinn gengur fyrir.“

Aðspurður hvort að þátttaka hans í Die große Chance hafi gert hann frægan í Austurríki segir Þórsteinn svo vera. „Maður er orðinn eitthvað aðeins frægur. Fólk þekkir mann úti á götu og kemur oft upp að mér. Það er oftast mjög ánægt með mig og sumir vilja fá að taka myndir með mér.“

Að sögn Þórsteins eru tíu keppendur eftir í þættinum. Er þetta fólk á öllum aldri, en yngstu eru 13 ára stelpur. Hann segir jafnframt að undirbúningur fyrir þáttinn á föstudaginn gangi vel. „Ég mun flytja frumsamið lag um norðurljós,“ segir Þórsteinn. „Það er mín leið til að þakka Íslandi.“

Í myndbandinu hér að neðan má sjá Þórstein flytja Wrecking Ball í þættinum á föstudaginn.

Hér sést Þórsteinn flytja Wrecking Ball í síðasta þætti.
Hér sést Þórsteinn flytja Wrecking Ball í síðasta þætti. Skjáskot af Youtube
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert