Gagnrýnir umfjöllun um ákæruvaldið

Helgi Magnús Gunnarsson, vararíkissaksóknari, ræddi við fjölmiðlamenn eftir dómsuppkvaðninguna í …
Helgi Magnús Gunnarsson, vararíkissaksóknari, ræddi við fjölmiðlamenn eftir dómsuppkvaðninguna í morgun. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Bagalegt er að umræða um mál á borð við lekamálið fari að snúast í þá átt að grafa undan trú fólks á ákæruvaldið. Þetta sagði Helgi Magnús Gunnarsson, vararíkissaksóknari, eftir að dómur var kveðinn upp í málinu í morgun. Því miður hafi verið uppi raddir um að ákæruvaldið hafi gengið erinda í málinu.

„Það hefur töluvert gengið á í þessu máli. Því miður hafa verið uppi raddir um það að ríkissaksóknari hafi gengið einhverra erinda og annað slíkt,“ sagði Helgi Magnús við fjölmiðlamenn eftir að Gísli Freyr Valdórsson, fyrrverandi aðstoðarmaður Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, innanríkisráðherra, var dæmdur í átta mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir að leka trúnaðarupplýsingum um hælisleitanda í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun.

Umræðan um málið hafi snúist um ákæruvaldið, tilgang þess og hvatir og það væri miður. Spekingar hafi sprottið upp sem sagt hafi að fella ætti niður málið og velt vöngum um tilgang ákæruvaldsins. Hann benti á að einhverjir hafi orðið til að gagnrýna það að lagt hafi verið hald tölvu Gísla Freys og það hafi þótt of harkaleg aðferð. Það hafi verið fullkomlega eðlileg aðgerð enda hafi komið á daginn að sönnunargagnið sem skipti mestu máli hafi fundist á tölvu sakborningsins. 

„Það er mjög bagalegt ef umfjöllun um svona mál fer í þá átt að grafa undan trúverðugleika og trausti fólks á ákæruvaldinu. Menn geta haldið uppi sakleysi sínu og geta gert nákvæmlega það sem þeir vilja fyrir dómi en það hefur gengið svolítið meira á í þessu máli og það er auðvitað miður. Það er þá gott að vonandi einhverjir sem sjái þessa niðurstöðu átti sig á að það var nú ekki rétt sem sagt var í hita leiksins,“ sagði Helgi Magnús. Hann vildi þó ekki svara því hvort hann teldi að Hanna Birna hafi gegnið of hart fram í málinu. 

„Þetta er víðar og í öðrum málum. Þetta er alltof algengt. Það er ekki sama hver er. Menn sem blogga í eigin persónu geta sagt hvað sem er og menn geta þá dæmt hvort þeir séu trúverðugir eða ekki. En það er mjög miður ef að menn í stöðum... það hefur komið fram í öðrum málum, að það er verið að álykta á flokksráðsfundum að það eigi að fella niður ákæru í málum. Hvað er það? Afskipti af ákæruvaldi eru jafnalvarleg og afskipti af dómsvaldi. Alls staðar annars staðar er það viðurkennt í ríkara mæli að ákæruvaldið er hluti af réttarvörslukerfinu og jafnmikilvægt og dómstólarnir,“ sagði Helgi Magnús. 

Hann sjálfur hafi fengið á sig alls kyns kærur og umfjallanir vegna mála sem hafi verið í gangi sem og embætti ákæruvaldsins.

„Ég er ekki með þessu að segja að það megi ekki gagnrýna störf okkar á málefnalegan hátt og ræða þau. En þegar dómsmál eru í gangi er eðlilegt að bíða niðurstöðu dóms og láta þá umfjöllun ganga sína leið,“ sagði hann.

Skilorðsbundið fangelsi vegna lekans

Gísli Freyr Valdórsson í Héraðsdómi Reykjavíkur. Í forgrunni er Jóhann …
Gísli Freyr Valdórsson í Héraðsdómi Reykjavíkur. Í forgrunni er Jóhann Páll Jóhannsson, blaðamaður DV, sem mikið hefur fjallað um lekamálið undanfarin misseri. mbl.is/Kristinn Ingvarsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert