Mikið fyrir þau, lítið fyrir okkur

„Það sem er mikið fyrir þeim er lítið fyrir okkur,“ segir Magnús Ingi Ásgeirsson, nemandi í 7. bekk í Langholtsskóla sem tekur þátt í söfnuninni Jól í Skókassa sem nú fer fram í 10. skipti á vegum KFUM og KFUK. Stefnt er að því að senda um 5.000 skókassa með leikföngum, skóladóti, hreinlætisvörum, sælgæti og flíkum til barna sem búa á munaðarleysingjahælum, barnaspítölum eða við sára fátækt í Úkraínu. 

Í vikunni hafa leikskólabörn og skólakrakkar komið við á Holtaveginum og fært gjafir og sum hver ekki í fyrsta skipti enda segja þau það góða tilfinningu að finna hluti sem hætt er að nota heima til að senda út.

Lokað verður fyrir söfnunina á morgun þar sem siglt verður með gáminn eftir helgi til Úkraínu. Ætla má að ástandið þar sé verra nú en það hefur verið undanfarin ár vegna bardaganna sem þar hafa blossað upp á árinu.

mbl.is komi við hjá KFUM og KFUK á Holtaveginum í gær.

Hvernig á að ganga frá skókassanum?

  1. Finnið tóman skókassa og pakkið honum inn í jólapappír. Athugið að pakka lokinu sérstaklega inn þannig að hægt sé að opna kassann. Hægt er að nálgast skókassa í skóbúðum og mælt er með að fólk tryggi sér kassa í tæka tíð.
  2. Ákveðið hvort gjöfin sé ætluð fyrir strák eða stelpu og fyrir hvaða aldur: (3-6), (7-10), (11-14) eða (15-18). Hér til hægri á síðunni má finna tilbúinn merkimiða. Klippið miðann út, merkið við réttan aldursflokk og límið ofan á skókassann.
  3. Setjið 500-1.000 krónur í umslag og leggið efst í kassann. Peningurinn er fyrir kostnaði sem fylgir verkefninu.
  4. Lokið kassanum með því að setja teygju utan um hann.

Gjafir í skókassana

Í kassann skal setja a.m.k. einn hlut úr hverjum eftirtalinna flokka:

  • Leikföng, t.d. litla bíla, bolta, dúkku, bangsa eða jó-jó. Athugið að láta auka rafhlöður fylgja rafknúnum leikföngum.
  • Skóladót, t.d. penna, blýanta, yddara, strokleður, skrifbækur, liti, litabækur eða vasareikni.
  • Hreinlætisvörur. Óskað er eftir því að allir láti tannbursta og tannkrem í kassann sinn. Einnig má setja sápustykki, greiðu, þvottapoka eða hárskraut.
  • Sælgæti, t.d. sleikjó, brjóstsykur, pez, tyggjó eða karamellur.
  • Föt, t.d. húfu, vettlinga, sokka, trefil, bol eða peysu.

Hvað má ekki fara í skókassana?

  • Mikið notaðir eða illa farnir hlutir.
  • Matvara.
  • Stríðsdót, t.d. leikfangabyssur, leikfangahermenn eða hnífar.
  • Vökvar, t.d. sjampó, krem eða sápukúlur.
  • Lyf, t.d. vítamín, hálsbrjóstsykur eða smyrsl.
  • Brothættir hlutir, t.d. speglar eða postulínsdúkkur.
  • Spilastokkar. Þar sem spilastokkar eru tengdir fjárhættuspilum í Úkraínu, óskum við eftir að þeir séu ekki gefnir í skókassana.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert