Ábyrgð deilunnar hvíli á herðum sveitarfélaga

Kjaradeila tónlistarkennarara er enn í hnút og búist er við …
Kjaradeila tónlistarkennarara er enn í hnút og búist er við fundarhöldum eftir helgi í húsi ríkissáttasemjara. mbl.is/Golli

Stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga segir að samningnefnd Félags tónlistarkennara hafi hafnað öllum tilboðum samninganefndar SÍS um sömu laun og samið var um við leik- og grunnskólakennara. Stjórn Kennarasambands Íslands segir að ábyrgð vinnudeilunnar hvíli á herðum sveitarfélaga því félagar í FT geti með engu móti sætt sig við lakari kjör en aðrir félagsmenn KÍ njóta.

Í bókun sem var gerð á fundi stjórnar SÍS í gær segir: „Samninganefnd Félags tónlistarskólakennara hefur hafnað öllum tilboðum samninganefndar Sambands íslenskra sveitarfélaga um sömu laun og launamyndunarkerfi og samið var um við leik- og grunnskólakennara á þessu ári. Tónlistarskólakennarar krefjast hærri launa en leik- og grunnskólakennarar, eða launahækkana sem nema um 21%, sem er óásættanlegt m.a. vegna þeirra áhrifa sem það myndi hafa á þær kjaraviðræður sem eru í undirbúningi á vinnumarkaði.

Tilboð sveitarfélaganna felur ekki í sér neinar tillögur um breytingar á magni árlegrar vinnuskyldu tónlistarkennara né um að lengja árlegan starfstíma tónlistarskóla,“ segir m.a. í bókuninni.

Sýni ekki sanngirni

Þar segir ennfremur að samninganefnd SÍS telji samninganefnd FT ekki sýna sanngirni í viðræðunum og þyki miður villandi málflutningur félagsins í fjölmiðlum.

Stjórn KÍ hefur brugðist við bókuninni með því að ítreka það sem fram hafi komið í ályktun hennar fyrir rúmum mánuði. Þar sé harmað að tónlistarskólakennarar skuli þurfa að grípa til þess neyðarúrræðis að boða verkfall meðal félagsmanna sinna. Stjórn KÍ bendi jafnframt á að ábyrgð vinnudeilunnar hvíli á herðum sveitarfélaga því félagar í FT geti með engu móti sætt sig við lakari kjör en aðrir félagsmenn KÍ njóta. Það veki sérstaka athygli að allt sem fram komi í þessari ályktun skuli enn eiga við nú rúmlega mánuði síðar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert