Björgunarmenn víða að störfum

Mynd er úr safni
Mynd er úr safni mbl.is/Þorkell Þorkelsson

Björgunarsveitir Slysavarnafélagsins Landsbjargar á Austurlandi hafa í dag sinnt ýmsum verkefnum vegna þess mikla veðurofsa sem nú gengur yfir landið austanvert. Guðjón Már Jónsson, formaður svæðisstjórnar á svæði 13, segir að um fimmtíu björgunarsveitarmenn hafi tekið þátt í verkefnum þessu tengdum. 

Í Berufirði þurfti að óska eftir aðstoð björgunarsveita þegar þak gaf sig á hlöðu sem þar stendur auk þess sem þakplötur tókust á loft á Fáskrúðsfirði. „Svo hafa verið verkefni á Reyðarfirði, Seyðisfirði og Egilsstöðum þar sem björgunarsveitarmenn aðstoðuðu við vaktaskipti á heilbrigðisstofnunum,“ segir Guðjón Már í samtali við mbl.is en þar þurftu björgunarmenn að ferja heilbrigðisstarfsfólk til og frá vinnu í jeppabifreiðum.

Sömu sögu er að segja um Vopnafjörð en þar þurfti einnig að nota jeppabifreiðir björgunarsveita til þess að koma starfsfólki til og frá vinnu. Spurður hvort fólk haldi sig ekki að mestu innandyra fyrir austan vegna veðurs kveður Guðjón Már já við. „Fólk er nú bara innandyra í svona veðri, það hefur nú alveg vit á því.“

Sú veðurhæð sem nú gengur yfir Austurland mun vara fram á nótt og verður því ekkert útiveður þar í dag og í kvöld. Á morgun er svo gert ráð fyrir leiðindaveðri fyrir austan og er fólk því hvatt til þess að fylgjast vel með veðurspá.

Í Hamarsfirði er staðsett sjálfvirk veðurathugunarstöð og er hún í eigu Vegagerðarinnar. Stöðin er nú hætt að senda frá sér mælingar, en skömmu áður en það gerðist sýndu mælar hennar meðalvind upp á 39 m/s og allt að 67 m/s í hviðum.

Fylgjast má með fréttum af veðri á veðurvef mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert