Ekki hefur verið rætt við Sigrúnu

Sigrún Magnúsdóttir, þingflokksformaður Framsóknarflokksins.
Sigrún Magnúsdóttir, þingflokksformaður Framsóknarflokksins.

Sigrún Magnúsdóttir, þingflokksformaður Framsóknarflokksins, hafði ekki heyrt á það minnst að hún væri jafnvel að vera ráðherra fyrr en hún las Morgunblaðið með kaffinu í morgun. Hún segir að breytingar á ríkisstjórn séu alfarið í höndum forsætisráðherra og hún sé alveg róleg vegna þessa.

„Þetta er eitthvað sem þið setið fram“, segir Sigrún þegar mbl.is ræddi við hana í dag. Hún segir að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra hafi ekki sett sig í samband við hana varðandi ráðherrastól og hún segir að það sé alfarið í hans höndum að taka slíkar ákvarðanir.

Aðspurð um hvernig hún myndi taka slíkri beiðni segist hún ekki geta svarað því núna og hún vilji ekki tjá sig um þetta mál á þessu stigi.

Líklegt er að breytingar verði gerðar á ráðherraskipan Framsóknarflokksins um áramót. Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins eru áform um að fimmti ráðherra Framsóknar komi inn í ríkisstjórnina og taki við umhverfis- og auðlindaráðuneytinu. Nafn Sigrúnar Magnúsdóttur hefur helst verið nefnt í því sambandi. Til skoðunar var að þessi breyting yrði nú í desemberbyrjun, þegar Sjálfstæðisflokkurinn fól Ólöfu Nordal að taka við innanríkisráðuneytinu. Þá var niðurstaðan hins vegar sú að bíða að minnsta kosti til áramóta.

Ríkisráðsfundur með forseta Íslands, þar sem formlegar breytingar á ríkisstjórn eru gerðar, er samkvæmt venju á Bessastöðum að morgni gamlársdags. Ekki náðist í forsætisráðherra vegna þessa í gær né hefur náðst í hann í dag.

Breytingar líklegar

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert