Týr með áhafnarlaust skip í togi

Fyrr í vikunni fóru gæslumenn í Frontex verkefninu um borð …
Fyrr í vikunni fóru gæslumenn í Frontex verkefninu um borð í skipið Blue Sky, en þar hafði áhöfnin einnig yfirgefið skipið. Um borð í því voru 970 manns. AFP

Varðskipið Týr tók í morgun flutningaskipið Ezadeen í tog, en um borð voru um 400 til 450 flóttamenn sem voru á leið til Ítalíu, þar af um 60 börn. Mbl.is hefur þetta eftir upplýsingum frá Landhelgisgæslunni. Týr er nú við gæslu sem hluti af Frontex-verkefninu í Miðjarðarhafi. 

Samkvæmt fréttavef BBC var engin áhöfn um borð, en vont veður og mikill öldugangur er á svæðinu, sem er suðaustur af Ítalíu. 

Skipið var orðið rafmagnslaust og vélarvana að sögn Landhelgisgæslunnar, en farið var um borð í skipið og það sett í tog í kringum fimm í morgun.

Ezadeen er 73 metra langt skip, skráð í Síerra Leóne. Það var byggt fyrir um 50 árum og er notað sem flutningaskip undir lifandi búfénað. Samkvæmt upplýsingum úr siglingaskrá á netinu átti skipið að fara frá Kýpur til Frakklands. Skipið er í eigu félags frá Líbanon, en var í höndum hóps sem vitað er að stundar mansal, samkvæmt BBC.

Þetta er fjórða skiptið sem Týr hefur komið að svona máli síðan það hélt til Miðjarðarhafsins í desember. 

Enn sem komið er eru óljósar fréttir um líðan flóttafólksins, en samkvæmt upplýsingum frá Landhelgisgæslunni hefur enn ekkert skeyti borist frá Tý.

Uppfært 07:08: Á vef Landhelgisgæslunnar kemur fram að hjálparbeiðni hafi borist klukkan 16:00 í gær, en þá var Týr staddur í um hálfs tíma siglingu frá flutningaskipinu. Týr er eina skipið á svæðinu sem stendur. Varðskipið hefur verið í sambandi við Ezadeen síðan síðla dags og samkvæmt upplýsingum hefur nú tekist að koma fjórum landhelgisgæslumönnum yfir í skipið með léttabát frá varðskipinu til að freista þess að ná tökum á stjórn skipsins og hlúa að flóttamönnunum. Nú er beðið eftir þyrlu frá ítölsku strandgæslunni með vistir, vatn og aðstoð.

Ekki er vitað nákvæmlega um ástand fólksins en þó er ljóst að vistir, meðal annars vatn, eru á þrotum.   

Frétt mbl.is: 450 manns í hættu á skipi án áhafnar

Varðskipið Týr
Varðskipið Týr Af vef Landhelgisgæslunnar
Flóttafólkið á Blue Sky voru aðallega frá Sýrlandi. Því skipi …
Flóttafólkið á Blue Sky voru aðallega frá Sýrlandi. Því skipi var á gamlársdag siglt til grísku eyjarinnar Corfu, en það stefni í strand en var bjargað af áhöfn gæsluskips á svæðinu. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert