Hvenær fara læknarnir í verkfall?

mbl.is/Ómar

Að óbreyttu hefst verkfall Læknafélags Íslands á ný á miðnætti í nótt. Ekki er enn fullvíst að af verkfalli verði þar sem samninganefnd Læknafélags Íslands mun funda í dag með samninganefnd ríkisins. Á föstudag slitnaði upp úr viðræðum ríkisins við Skurðlæknafélag Íslands og hefur ekki verið settur nýr fundartími.

Fyrirhugaðar verkfallsaðgerðir lækna eru mun umfangsmeiri en áður og ná til fleiri stofnana auk þess sem hvert svið og stofnun fyrir sig mun nú fara í fjögurra daga verkfall í senn í stað tveggja. Þá er ekki gert ráð fyrir frívikum inn á milli líkt og gert var fyrir áramót. Eru verkfallsaðgerðir því áætlaðar sleitulaust frá 5. janúar til 26. mars, að undanskildum föstudögum, laugardögum og sunnudögum, ef ekki fæst lausn á deiluna.

Aðgerðarsvið, flæðisvið og aðrar stofnanir:
5. til 9. janúar. - 2. til 6. febrúar. - 2. til 6. mars

Frá og með miðnætti aðfaranótt 5. janúar hefst verkfall á aðgerðarsviði Landspítala og flæðisviði Landspítala. Á sama tímabili munu læknar við eftirtaldar aðrar stofnanir einnig leggja niður störf: Sjúkratryggingar Íslands, Tryggingastofnun ríkisins, Greiningarstöð ríkisins, Heyrnar- og talmeinastöð Íslands, Vinnueftirliti ríkisins, Lyfjastofnun Íslands, Embætti landlæknis og Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga. 

Verkfallsaðgerðir eru áætlaðar hjá þessum sömu hópum frá miðnætti aðfaranótt 2. febrúar til miðnættis aðfaranótt 6. febrúar og á ný frá miðnætti aðfaranótt 2. mars til miðnættis aðfaranótt 6. mars, nema samningar náist.

Lyflæknasvið, Sjúkrahúsið á Akureyri og Skurðlæknafélag Íslands:
12. til 16. janúar. - 9. febrúar til 13. febrúar. - 9. mars til 13. mars.

Á miðnætti aðfaranótt 12. janúar leggja lækn­ar á Sjúkra­hús­inu á Ak­ur­eyri og á lyflækn­is­sviði Land­spít­ala niður störf og stend­ur verk­fallið til miðnætt­is aðfaranótt föstu­dags­ins 16. janúar. Á sama tímabili munu félagar í Skurðlæknafélagi Íslands einnig leggja niður störf, náist ekki samningar í kjaradeilum þeirra. 

Sömu hópar fara aft­ur í verk­fall frá miðnætti aðfaranótt miðviku­dags­ins 9. febrúar til miðnætt­is aðfaranótt föstu­dags­ins 13. febrúar og á ný frá miðnætti 9. mars fram til miðnættis 13. mars.

Rannsóknarsvið, kvenna- og barnasvið og heilbrigðisstofnanir:
19. til 23. janúar. - 16. til 20. febrúar. - 16. til 20. mars.

Á miðnætti aðfaranótt mánudagsins 19. janúar til miðnættis aðfaranótt föstudagsins 23. janúar leggja læknar á rannsóknarsviði Landspítalans og kvenna- og barnasviði Landspítalans niður störf. Sama gildir um lækna á Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, Heilbrigðisstofnun Vesturlands, Heilbrigðisstofnun Vestfjarða, Heilbrigðisstofnun Norðurlands, Heilbrigðisstofnun Austurlands, Heilbrigðisstofnun Suðurlands og Heilbrigðisstofnun Suðurnesja.

Sömu hópar leggja aftur niður störf á miðnætti aðfaranótt 16. febrúar til miðnættis aðfaranótt 20. febrúar og svo á ný á miðnætti aðfaranótt 16. mars til miðnættis aðfaranótt 20. mars.

Geðsvið og skurðlækningasvið:
26. til 30. janúar. - 23. til 27 febrúar. -23. til 27. mars.

Þá munu lækn­ar á geðsviði og skurðlækn­inga­sviði Land­spít­ala leggja niður störf frá miðnætti aðfar­anótt mánudagsins 26. janúar til miðnætt­is aðfaranótt föstu­dags­ins 30. janúar. Báðir hópar hefja verkfall á ný aðfaranótt 23. febrúar til miðnættis aðfaranótt 27. febrúar og aftur á miðnætti aðfaranótt 23. mars til miðnættis aðfaranótt 27. mars, nema samningar náist.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert