Deilan um brunagildruna óleyst

Bensínstöð er í bílageymslunni og eru margir á þeirri skoðun …
Bensínstöð er í bílageymslunni og eru margir á þeirri skoðun á hún eigi að fara. Hún hefur hins vegar starfsleyfi þar til ársins 2021. Auk uppsetningu vatnsúðakerfis vill slökkviliðið brunahólfun á milli bílageymslu og bensínstöðvarinnar. mbl.is/Ómar

Deila um uppsetningu brunavarna í bílageymslu Hamraborgar 14-38 í Kópavogi er óleyst. Að óbreyttu hyggst Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins loka efstu geymslunni nk. þriðjudag, en formaður Hamraborgarráðsins mun hins vegar fara fram á frest til 13. febrúar en hann hyggst jafnframt segja af sér.

„Staðan er óbreytt. Það er vandræðaástand sem ríkir. Við munum fá frest á lokun til þrettánda [febrúar] og nýr aðalfundur verður haldinn eins fljótt og hægt er og þá verður það ný stjórn sem mun reyna að leysa úr þessum hnút,“ segir Heiðar Ástvaldsson, formaður Hamraborgarráðsins, í samtali við mbl.is. Hann bætir því við að hann hyggist segja af sér formennsku vegna málsins. 

Hætta á stórbruna getur skapast

Eins og mbl.is greindi frá sl. þriðjudag, þá hafa eldvarnir í bílageymslunni verið óviðunandi í áratugi. Um miðjan desember ákvað slökkviliðsstjóri að loka efri hluta bílageymslunnar til að tryggja öryggi íbúa. Upphaflega stóð til að loka bílageymslunni 6. janúar en aðgerðum var verið frestað vegna íbúafundar sem fór fram í gærkvöldi. 

Slökkviliðið segir að geymslan sé brunagildra og að þar geti skapast hætta á stórfelldum eldsvoða.

Að beiðni Kópavogsbæjar samþykkti slökkviliðsstjóri að veita mönnum frest til 13. febrúar gegn því að niðurstaða fengist í málið á fundinum. Annars myndi slökkviliðið neyðast til að loka geymslunni 13. janúar. Engin niðurstaða varð hins vegar á fundinum.

Kópavogsbær greiðir mest

Kópavogsbær segir í svari við fyrirspurn mbl.is um málið, að bæjaryfirvöldum sé mikið í mun að mun að uppsetning vatnsúðarakerfis í bílageymslunni dragist ekki á langinn og er tilbúinn til að gera allt til að af því verði sem fyrst. Tekið er fram, að bærinn eigi aðeins um 18% hlut í bílageymslunni en greiði 55% af rekstrarkostnaði samkvæmt sérstöku samkomulagi frá árinu 1993. Þar fyrir utan sé Kópavogsbær eigandi 25 íbúða af ríflega 200 íbúðum í Hamraborg 14 - 38. Bærinn beri þannig langstærstan hlut af kostnaði við þessa framkvæmd.

Hamraborgarráðið hélt fund 27. nóvember sl. þar sem samþykkt var að taka tilboði verktaka og verkfræðiskrifstofu um endurnýjun vatnsúðakerfis í bílageymslunni og eftirlit með uppsetningunni. Tilboðið hljóðaði upp á 24 milljónir króna.

Heiðar segir að á fundinum í gær hafi verið ákveðið að samþykktin frá því í lok nóvember skyldi gilda. „Það þýðir að það er ætlast til þess að stjórn Hamraborgarráðs fari í framkvæmdir sem við getum ekki farið í því Kópavogsbær neitar,“ segir Hann og bætir við að Kópavogsbær hafi átt að greiða 55% heildarkostnaðarins. 

Ekki framkvæmanlegt fyrir 24 milljónir

Heiðar, eins og Kópavogsbær, hefur ekki trú á því að hægt sé fara í framkvæmdir fyrir 24 milljónir. „Að mínu mati er raunhæft að það muni fara nálægt 30 [milljónum króna], jafnvel hugsanlegt að það fari yfir 30 [milljónir]. Það er mitt mat,“ segir Heiðar aðspurður. Það sé ekkert gagn í því að taka ódýrasta tilboði ef það sé ekki framkvæmanlegt.

Heiðar segist hafa fengið verkfræðing frá Kópavogsbæ á fundinn í gærkvöldi til að útskýra fyrir íbúum af hverju Kópavogsbær geti ekki gengið að þessu tilboði. „Það er búið að koma því inn í kollinn á fólkinu að Kópavogsbær sé vondi maðurinn sem er að reyna svindla á ykkur með frekju og yfirgangi. Ég hins vegar, sem formaður Hamraborgarráðs, segi að Kópavogsbær er vinur okkar. Hann vill vinna með okkur og hann er búinn að láta gera tilboð í þetta og ganga að hagstæðasta tilboðinu,“ segir Heiðar sem bætir við að hann hafi gert eins vel og hann geti.

Þrír eru í stjórn ráðsins, en rúmlega 200 eigendur eiga atkvæðisrétt í ráðinu.

Fá frest verði óskað eftir honum

„Ég mun skrifa bréf strax yfir helgina til slökkviliðsins, og ég er búinn að fá vilyrði frá þeim að þessu verði frestað til 13. febrúar. Þannig að það er ekki lokun alveg á næstunni. Ég geri það sem ég get,“ segir Heiðar.

Jón Viðar Matthíasson, slökkviliðsstjóri höfuðborgarsvæðisins, segir í samtali við mbl.is, að slökkviliðið muni verða við beiðni ráðsins um frest ef hún berst. „Ef við fáum ekki slíka beiðni þá neyðumst við til þess að loka á þriðjudaginn,“ segir Jón Viðar.

Óskar stjórn Hamraborgarráðs góðs gengis

Svar Kópavogsbæjar við fyrirspurn mbl.is um málið er svohljóðandi í heild sinni:

„Kópavogsbæ er mikið í mun að uppsetning vatnsúðarakerfis í bílageymslunni dragist ekki á langinn og er tilbúinn að gera allt til að af því verði sem fyrst. Þess má geta að bærinn á aðeins um 18% hlut í bílageymslunni en greiðir 55% af rekstrarkostnaði samkvæmt sérstöku samkomulagi frá árinu 1993. Þar fyrir utan er Kópavogsbær eigandi 25 íbúða af ríflega 200 íbúðum í Hamraborg 14-38. Bærinn ber þannig langstærstan hlut af kostnaði við þessa framkvæmd. Kópavogsbær hefur auk þess boðist til að lána húsfélagi Hamraborgar 14-18, Hamraborgarráðinu, fyrir hluta framkvæmdakostnaðar, það er fyrir þá íbúðareigendur sem kunna að eiga í erfiðlegum með að greiða sinn hluta kostnaðar á framkvæmdatímanum.

Niðurstaða fundar íbúðaeigenda í Hamraborg 14-38 í gærkvöldi var sú að stjórn húsfélagsins var falið að taka yfir framkvæmd við uppsetningu vatnsúðarakerfis af bænum. Bærinn óskar stjórninni góðs gengið í vinnunni og vonar að vinna við uppsetningu kerfisins hefjist sem fyrst það er hagur allra eigenda bílageymslunnar.“

Deilan um brunavarnir í geymslunni hafa staðið yfir í mörg …
Deilan um brunavarnir í geymslunni hafa staðið yfir í mörg ár. mbl.is/Ómar
Verði ekkert að gert verður efstu hæð geymslunnar lokað 13. …
Verði ekkert að gert verður efstu hæð geymslunnar lokað 13. janúar. mbl.is/Ómar
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert