Tveir frídagar eða 17. júní færður?

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri.
Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur, sagðist á borgarstjórnarfundi í gær að hafa heyrt þá hugmynd nefnda að 19. júní verði gerður að frídegi í ár í tilefni 100 ára afmælis kosningaréttar kvenna. Hann spurði á móti hvort það mætti kannski færa hátíðarhöld 17. júní yfir á 19. júní.

„Ég veit að það hefur flogið fyrir sú hugmynd að 19. júní í sumar, sem er föstudagur, verði gerður að frídegi. Þær mótbárur hafa líka heyrst að þetta sé það nálægt 17. júní sem er að sjálfsögðu okkar þjóðhátíðardagur sem er frídagur og við höldum upp á árlega, að það sé erfitt bæði fyrir atvinnulíf og aðra að vera með tvo frídaga í miðri viku svo nálægt.

En þá vil ég velta því upp hvort þeir sem þetta eru að skoða, og ég geri ráð fyrir að þetta sé til skoðunar við ríkisstjórnarborðið, hafi velt fyrir sér hvort að einhverju leyti eigi að sameina hátíðarhöldin og hafa frídag í tilefni þjóðhátíðardagsins og 100 ára afmælis kosningaréttar kvenna þann 19. júní í ár. Sameina þannig þessi hefðbundnu hátíðarhöld en helga þau í raun baráttu íslenskra kvenna fyrir kvenfrelsi og baráttu okkar allra fyrir jafnrétti og hafa frídaginn á föstudegi,“ sagði Dagur á fundi borgarstjórnar í gær.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert