Frjáls að leggja fram breytingatillögur

Einar K. Guðfinnsson, forseti Alþingis.
Einar K. Guðfinnsson, forseti Alþingis. mbl.is/Ómar Óskarsson

Forseti Alþingis getur ekki skert rétt þingmanna til að koma með breytingatillögur við mál. Þetta kom fram í máli Einars K. Guðfinnssonar þingforseta á Alþingi í dag eftir að gert var hlé á fundum þingsins í kjölfar þess að meirihluti atvinnuveganefndar lagði til á fundi nefndarinnar í morgun að gerðar yrðu breytingar á rammaáætlun og skoðaðir yrðu fjórir virkjanakostir til viðbótar við Hvammsvirkjun sem til þessa hafa verið í bið.

Mikil umræða varð um málið í morgun og var Einar hvattur til að kalla saman forsætisnefnd til þess að ræða málið. Einar tilkynnti um niðurstöðu fundar forsætisnefndar þegar þingfundur hófst aftur klukkan 14:00. Það er að forseti gæti ekki hlutast til um rétt þingmanna til þess að leggja fram breytingatillögur. Þingmenn stjórnarandstöðunnar gagnrýndi harðlega að breytingatillagan gengi gegn samkomulagi um rammaáætlun á milli flokkanna. Gerðu þeir að því skóna að markmið stjórnvalda væri að afnema rammaáætlun og fullyrtu að um lögbrot væri að ræða af hálfu meirihluta atvinnuveganefndar.

Helgi Hjörvar, þingflokksformaður Samfylkingarinnar, spurði hvort ekkert væri að marka samkomulag við Sjálfstæðisflokkinn og vísaði þar til þess að formaður atvinnuveganefndar er Jón Gunnarsson, þingmaður flokksins. Talaði Helgi mun lengur en þingsköp leyfðu og lét sig engu skipta að forseti Alþingis barði bjölluna ótt og títt. Hækkaði Helgi aðeins róminn og hélt áfram. Einar áréttaði að þó þingmönnum líkaði ekki niðurstaða forseta yrðu þeir að fara að þingsköpum. Fleiri þingmenn töluðu talsvert lengur en ræðutími þeirra leyfði. Einkum stjórnarandstöðuþingmenn en einnig einstakir þingmenn stjórnarflokkanna.

Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra sagði að farið væri með margt rangt í þessum efnum. Þannig hefði breytingatillagan aðeins verið lögð fram til umsagnar í þinginu. Þá hefði engin ákvörðun verið tekin um að virkja.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert