Endurskoða reglur um aðstoðarmenn

Tryggi hefur sent forsætisráðherra bréf þar sem lagt er til …
Tryggi hefur sent forsætisráðherra bréf þar sem lagt er til að reglur um aðstoðarmenn verði endurskoðaðar. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Tryggvi Gunnarsson, umboðsmaður Alþingis hefur sent forsætisráðherra bréf þar sem tilteknum ábendingum um hlutverk og stöðu aðstoðarmanna ráðherra er komið á framfæri. 

Í áliti umboðsmanns um samskipti Hönnu Birnu Kristjáns­dótt­ur, fyrr­ver­andi inn­an­rík­is­ráðherra við Stefán Ei­ríks­son, fyrr­ver­andi lög­reglu­stjóra höfuðborg­ar­svæðis­ins, segir að samskipti aðstoðarmanna ráðherra, sem höfðu á þeim tíma réttarstöðu sakbornings, við lögreglustjórann þar sem þeir óskuðu eftir að hann brygðist við tiltekinni frétt ,hefðu ekki verið í samræmi við hina óskráðu hæfisreglu stjórnsýsluréttarins.

Á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar í morgun, þar sem fjallað er um álit umboðsmanns, sagði Tryggi Gunnarsson að ekki væri ljóst hversu oft fyrrgreind samskipti hefðu átt sér stað. Símtölin væru þó allnokkur.

Ekki fylgt hefðbundnum reglum í ráðningu

Þá sagði að hann lesa mætti afstöðu hans í tilteknum álitaefnum varðandi hlutverk aðstoðarmanna og þá óvissu sem þar sé fyrir hendi í bréfi hans til forsætisráðherra. Í bréfinu er komið á framfæri tilteknum ábendingum um framkvæmd og grundvöll siðareglna fyrir ráðherra, reglur um skráningu formlegra samskipta og funda og hlutverk og stöðu aðstoðarmanna ráðherra.

Í álitinu segir Tryggi jafnframt að ástæða sé til að minna á að aðstoðarmenn ráðherra séu valdir til starfa af ráðherra án þess að fylgja þurfi hefðbundnum reglum um ráðningu ríkisstarfsmanna og starfstími þeirra fylgir starfstíma ráðherra nema ráðherra ákveði annað.

Heimilt en samrýmist ekki hæfisreglu

Tryggvi benti á að aðstoðarmönnum sé lögum samkvæmt heimilt að hafa samband við undirstofnanir ráðherra og væri þá oftast gert ráð fyrir að aðstoðarmaðurinn sé að gera það í umboði ráðherra.

„Ég tel jafnframt að hvað sem líður hugsanlegri heimild aðstoðarmanns ráðherra til þess að hafa samband við forstöðumann undirstofnunar vegna máls sem er á borði ráðherra þá hafi það ekki samrýmst hinni óskráðu reglu um sérstakt hæfi í stjórnsýslunni að þeir kæmu fram fyrir hönd ráðuneytisins gagnvart lögreglustjóranum eða hefðu símasamband við hann til að ræða viðbrögð við frétt sem birst hafði í fjölmiðli tengdri rannsókninni á meðan þeir höfðu réttarstöðu sakborninga við rannsóknina,“ segir í álitinu. „Staða þeirra og tengsl við rannsóknina var þá þannig að á meðan ríkissaksóknari hafði ekki tekið afstöðu til framhalds málsins á grundvelli rannsóknargagna frá lögreglunni gat það ekki samrýmst hinni óskráðu hæfisreglu að þeir kæmu fram fyrir hönd ráðuneytisins gagnvart lögreglustjóranum.“

Skoða hvernig beri að haga samskiptum

Í bréfi umboðsmanns til forsætisráðherra er bent á að tilefni kunni að vera til að endurskoða tiltekin atriði í leiðbeiningum um hlutverk og stöðu aðstoðarmanna ráðherra  frá 30. desember 2013 með hliðsjón af því sem kom fram við athugun málsins. 

Þá er einnig bent á að í leiðbeiningunum mætti koma fram afstaða til þess hvort og þá hvernig aðstoðarmenn megi haga beinum samskiptum sínum við forstöðumenn og starfsmenn undirstofnana viðkomandi ráðuneytis og um heimildir þeirra til að fá aðgang að gögnum um einstök stjórnsýslumál hjá undirstofnununum, og innan ráðuneytisins, og eftir atvikum aðkomu ráðherra að ákvörðun þar um.

Tryggvi Gunnarsson, umboðsmaður Alþingis og Hanna Birna Kristjánsdóttir, fráfarandi innanríkisráðherra.
Tryggvi Gunnarsson, umboðsmaður Alþingis og Hanna Birna Kristjánsdóttir, fráfarandi innanríkisráðherra.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert