Húsnæðið til staðar en fæst ekki leigt

Frá Suðureyri.
Frá Suðureyri. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Dæmi eru um að fólk hafi þurft að flytja frá stöðum eins og Suðureyri við Súgandafjörð og segja störfum sínum lausum vegna þess að það hefur ekki getað fengið húsnæði leigt á staðnum. Á sama tíma stendur stórt fjölbýlishús í eigu Íbúðalánasjóðs til að mynda autt á Suðureyri og hefur gert lengi. Bæði sveitarstjórnarmönnum og íbúum á staðnum þykir þetta einkennileg staða en sjóðurinn segir ekki hægt að leigja húsnæðið út vegna ástands þess.

„Það er náttúrulega mjög erfitt fyrir okkur þegar verið er að reyna að byggja upp að ekki séu til íbúðir fyrir fólk. Það er ákveðin tregða við að byggja húsnæði hér. Húsnæðisverð er ekki jafn hátt og á höfuðborgarsvæðinu á meðan byggingarkostnaðurinn er það. Þannig að fyrir vikið er vont að ekki sé hægt að nýta það húsnæði sem er þegar til staðar,“ segir Gísli Halldór Halldórsson, bæjarstjóri Ísafjarðar, í samtali við mbl.is.

Hliðstætt ástand er að finna til að mynda á Flateyri og í Hnífsdal að hans sögn. Hann segir mjög sérstakt ef einhver sjái sér hag í því að láta íbúðarhúsnæði standa autt og grotna niður á sama tíma og skortur sé á húsnæði. Sama hvort um sé að ræða Íbúðalánasjóð eða einhverja aðra. Engar tekjur komi inn á eignirnar við slíkar aðstæður og á sama tíma rýrni hugsanlega verðmæti þeirra vegna skorts á nauðsynlegu viðhaldi. Það sé engum í hag.

Mikill kostnaður við að standsetja íbúðirnar

Ingólfur Þorleifsson, íbúi á Suðureyri og fyrrverandi bæjarfulltrúi, tekur í sama streng og Gísli Halldór í samtali við mbl.is. „Ég veit um tvö dæmi af mínum vinnustað um konur sem hafa þurft að flytja úr bænum vegna þess að þær fengu ekki húsnæði.“ Honum þyki það öfugsnúið að á sama tíma og íbúðarhúsnæði standi autt í bænum þurfi fólk að yfirgefa hann vegna skorts á húsnæði. Það sé frekar nöturleg staða á sama tíma og verið sé að reyna að fjölga fólki á staðnum fremur en hitt.

Sigurður Erlingsson, forstjóri Íbúðalánasjóðs, segir í samtali við mbl.is að umrætt húsnæði sé vissulega í eigu sjóðsins. Hins vegar sé það ekki í ástandi til þess að hægt sé að leigja það út. „Eignin er í döpru ástandi og það er lauslegt mat manna að setja þurfi allavega tvær milljónir í hverja íbúð til þess að það sé hægt að leigja þær út sæmilega kinnroðalaust. Þannig að þetta eru of miklar endurbætur til þess að menn leggi út í það,“ segir hann. Hins vegar hafi ákveðnir aðilar sýnt eigninni áhuga og fundir í gangi í þeim efnum.

„Þess utan hafa margar eignir sem við höfum átt á Vestfjörðum selst undanfarna tólf mánuði. Fyrir vikið eigum við sums staðar orðið ekki neinar eignir,“ segir Sigurður. Það sé auðvitað vond staða að eiga eignir á stöðum þar sem fólk vanti húsnæði. En staðan sé engu að síður sú að þegar eignir séu ekki í leiguhæfu ástandi og ekki hægt að koma þeim í það ástand nema með miklum fjárútlátum sé einfaldlega ekki hægt að leigja þær út. Hins vegar sé unnið að því að selja umræddar eignir og koma þeim þannig í notkun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert