Vigdís Hauksdóttir upphandleggsbrotin og í einangrun

Vigdís Haukdsóttir ferð í aðgerð vegna upphandleggsbrots á föstudag.
Vigdís Haukdsóttir ferð í aðgerð vegna upphandleggsbrots á föstudag. mbl.si/Þórður Arnar

„Ég bara ligg upp á spítala,“ svara Vigdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins þegar blaðamaður mbl.is spyr hvernig hann hitti á hana.

Vigdís Hauksdóttir var í Grænlandi í gær á fundi Vestnorræna ráðsins þegar hún varð fyrir því óláni að renna í hálku og brjóta á sér upphandlegginn.

„Það eru mjög erfiðar veðurfarslegar aðstæður á þessum tíma í Grænlandi. Það fór að rigna í 15 stiga frosti og úr varð mikil hálka svo ég bara datt og lenti svona rosalega illa,“ segir hún.

Vigdís dvelur nú á Landspítalanum í Fossvogi og þar sem hún er í einangrun en slíkt þurfa allir sjúklingar sem dvalist hafa á erlendu sjúkrahúsi að þola vegna smithættu. Hún ber sig vel miðað við aðstæður og segir að nú sé ekki annað að gera en að bíða þess að komast í aðgerð á föstudag þar sem beinið verður neglt aftur saman. Hún viðurkennir þó að flugferðin til Íslands í nótt hafi ekki verið ánægjuleg enda hafi læknar í Grænlandi ekki getað gert annað en sett hana í fatla og gefið henni bólgueyðandi.

„Núna líður mér ágætlega, hér er ég komin í mjög gott atlæti en heimferðin [frá Grænlandi] var erfið. Það var mikil ókyrrð í loftinu og þegar maður er með beinbrot þá nuddast allt saman,“ segir Vigdís.

Hún lætur vel af þeim sem hafa sinnt henni á Landspítalanum og segir þjóðina geta verið stolta af því góða heilbrigðisstarfsfólki sem hún býr að. „Maður finnur svo sannarlega fyrir því þegar eitthvað kemur upp á,“ heldur hún áfram og bætir við að hún sé afar þakklát fyrir að læknadeilan sé leyst.

Vigdís segir ljóst að hún þurfti að skrá sig veika á Alþingi næstu daga. Í næstu viku er hinsvegar kjördæmavika þar sem þingmenn heimsækja kjósendur sína vítt og breitt um landið. Hyggst Vigdís sjá til eftir aðgerðina hvort henni verði unnt að snúa aftur til starfa að kjördæmaviku lokinni.

„Ef ég fæ hraðan bata eftir aðgerðina þegar búið er að negla þetta saman þá er aldrei að vita nema ég komi eldspræk aftur eftir tvær vikur,“ segir Vigdís glaðlega.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert