Leyndin nær líka til ráðherra

TISA samningur - Mikil leynd hvílir yfir viðræðum samningsins.
TISA samningur - Mikil leynd hvílir yfir viðræðum samningsins. Úr skjalinu einsog birt af Wikileaks

Heilbrigðisráðherra var ekki kunnugt um tillögu um markaðsvæðingu heilbrigðisþjónustu á vettvangi TISA-samningaviðræðnanna um frjáls þjónustuviðskipti. Formaður VG segir það sýna fram á hversu mikil leynd hvíli yfir viðræðunum að ráðherrar viti ekki að verið sé að sýsla með málaflokk þeirra.

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, spurði Kristján Þór Júlíusson, heilbrigðisráðherra, í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi út í fréttir af TISA-viðræðunum en Kjarninn hafi birt frétt um að gögn hafi lekið um viðræðurnar sem mikil leynd hafi hvílt yfir. Í þeim kæmi fram að tillaga hafi verið lögð fram um að heilbrigðisþjónusta yrði markaðsvædd. Sérfræðingar teldu að hún myndi auka kostnað við heilbrigðisþjónustu í þróunarlöndum og draga úr gæðum hennar í þróuðum ríkjum.

Upplýsingafulltrúi utanríkisráðuneytisins hafi svo greint frá því í dag að Ísland hefði ekki áhuga á að taka þátt í viðræðum um þá tillögu því það telji að tillagan eigi ekki heima innan TISA-viðræðnanna. Því spurði Katrín hvort heilbrigðisráðherra hafi verið kunnugt um tillöguna og afstöðu hans til þess að heilbrigðisþjónusta væri undir í slíkum viðskiptaviðræðum.

Engin úr heilbrigðisráðuneytinu komið að viðræðunum

Kristján Þór sagði að honum hafi ekki verið kunnugt um tillöguna og hann hafi lesið um hana í fjölmiðlum eins og Katrín. Enginn starfsmanna heilbrigðisráðuneytisins hefði aðkomu að viðræðunum.

Þetta taldi Katrín allnokkur tíðindi að heilbrigðisráðherra hafi ekki einu sinni verið upplýstur um þá afstöðu sem utanríkisráðuneytið lýsti. Hún tók þó fram að hún væri sammála þeirri afstöðu.

„Það bendir okkur á annað og það er hversu undarlegt það er að Ísland standi hér í viðræðum um þjónustuviðskipti sem svo mikil leynd hvílir yfir að hæstvirtir ráðherrar ríkisstjórnarinnar vita ekki að verið sé að ræða þeirra málaflokka innan viðræðnanna, að almenningur í landinu hafi mjög litlar upplýsingar um hvað sé í gangi og svörin sem fást frá utanríkisráðuneytinu eru fyrst og fremst þau að leynd muni hvíla yfir öllum gögnum þangað til samningur hefur verið undirritaður,“ sagði Katrín.

Í kjölfar umræðunnar á þingi óskaði Katrín eftir því að utanríkismálanefnd fái utanríkisráðuneytið á fund um TISA-viðræðurnar og vinnulag ráðuneytisis í kringum þær, í ljósi þess að heilbrigðisráðherra vissi hvorki um tillögur tengdar viðskiptum með heilbrigðisþjónustu né afstöðu Íslands í því máli.

Fyrri fréttir mbl.is: Viðræðunum ekki haldið leyndum

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert