„Fólk bara steinliggur“

Inflúensan getur lamað heilu sveitarfélögin.
Inflúensan getur lamað heilu sveitarfélögin. mbl.is/Sverrir

„Ég man ekki eftir öðru eins. Fólk bara steinliggur,“ segir Ásta Sjöfn Kristjánsdóttir, skólastjóri Reykhólaskóla, en heiftarlegur inflúensufaraldur herjar nú á Reykhólasveit.

Í dag lágu þrjátíu börn í skólanum heima, en heildarfjöldi nemenda er 59. Heildafjöldi íbúa í sveitinni er 280.

„Það vantaði nítján börn í grunnskóladeildina og ellefu í leikskóladeild, þannig að þetta er meira en helmingurinn,“ segir Ásta Sjöfn. Hún segir að flensan hafi hafist um miðjan janúar. „Þetta hafa verið svolítið sérkennilegar þrjár vikur með miklum afföllum. Það hafa verið svona tíu til fimmtán börn á dag að meðaltali veik. En þetta var stærsti veikindadagurinn hingað til.“

Inflúensan herjar þó ekki aðeins á börn heldur hafa fullorðnir einnig legið lasnir í rúminu. Voru til að mynda sex starfsmenn skólans veikir í dag en þeir eru alls 21 talsins. 

Ásta Sjöfn segir að flensan sé nokkuð kröftug og liggja börnin yfirleitt í góða viku. „Ég er búin að vera hérna síðan 1999 og ég man ekki eftir svona rosalegum veikindum.“

Hún er þó með kenningu um hvernig flensan komst í sveitina. „Um miðjan janúar fór sjöundi bekkur í skólabúðirnar að Reykjum. Krakkar úr Flataskóla í Garðabæ voru á sama tíma og ég held bara að krakkarnir hafa komið heim með flensuna úr Garðabænum,“ segir Ásta Sjöfn og hlær. „Ég hef ekki séð allan sjöunda bekk saman síðan 16. janúar.“

Ásta Sjöfn segist vona að toppnum sé náð í flensunni. Hún áætlar að fjögur eða fimm börn í skólanum hafi sloppið við inflúensuna hingað til. „Ég sjálf var rosalega glöð á föstudaginn, ég á þrjá stráka í skólanum og þeir höfðu allir sloppið. En sá fyrsti veiktist á laugardaginn, næsti í gær og sá þriðji í dag. En svona er þetta bara. Maður stjórnar þessu ekki.“

Að sögn Ingibjargar Birnu Erlingsdóttur, sveitastjóra í Reykhólasveit hefur inflúensan haft mikil áhrif á störfin í sveitafélaginu. „Eitt dæmi er Þörungaverksmiðjan á Reykhólum. Það hefur verið erfitt að reka hana því næstum því allir starfsmennirnir eru veikir heima,“ segir hún. „Ég hef aldrei séð svona mikla flensu á svona stuttum tíma.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert