Dæmdur fyrir stórfellt fíkniefnalagabrot

mbl.is/Sverrir

Hæstiréttur hefur dæmt Þórarinn Einarsson í 18 mánaða fangelsi fyrir stórfellt fíkniefnalagabrot með því að hafa staðið að innflutningi á 1049,72 gr. af kókaíni, 2,59 gr, af tóbaksblönduðu kannabisefni og 2,33 gr. af hassi. Hæstiréttur staðfestir dóm Héraðsdóms Reykjaness sem féll í janúar á síðasta ári.

Hann var ennfremur sakfelldur fyrir umferðarlagabrot með því að hafa ekið bifreið undir áhrifum ávana- og fíkniefna. Þórarinn var ennfremur sviptur ökurétti í eitt ár. 

Ríkissaksóknari ákærði Þórarinn fyrir stórfellt fíkniefnalagabrot í júlí 2013, en fram kemur í ákæru að hann hafi ætlað efnin í söludreifingu hér á landi í ágóðaskyni. Hann flutti efnin til Íslands sem farþegi með flugi frá Kaupmannahöfn, en þau voru falin í plasthliðum á ferðatösku hans. Þórarinn var handtekinn við komuna til Keflavíkurflugvallar.

Þórarinn neitaði sök í málinu. Fram kom í dómi héraðsdóms, sem Hæstiréttur staðfestir, að þrátt fyrir þá neitun Þórarins að hann hafi flutt fíkniefnin til landsins taldi dómurinn að kominn væri fram lögfull sönnun fyrir því að hann hefði hafi flutt fíkniefnin til landsins.

Undir rekstri málsins fyrir Hæstarétti óskaði Þórarinn dómkvaðningar matsmanns sem falið yrði að meta sakhæfi hans eða hvort að ætla mætti, með hliðsjón af andlegu heilsufari hans, að refsing myndi bera árangur.

Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 28. nóvember 2014 var geðlæknir dómkvaddur til þess að framkvæma matið. Hann skilaði matsgerð sinni í desember sl., en megin niðurstöður hans voru þær að Þórarinn væri sakhæfur og geðræn einkenni hans útilokuðu ekki að refsing kæmi að gagni. 

Hæstiréttur gerir hins vegar athugasemdir við töfum sem hafa orðið á málinu, en í niðurstöðu Hæstaréttar segir:

„Það athugast að rannsókn þess þáttar málsins sem varðar fíkniefnalagabrot ákærða sýnist að mestu hafa verið lokið í ársbyrjun 2012. Þrátt fyrir það var ekki ákært í málinu fyrr en 12. júlí 2013. Þá er þess jafnframt að gæta að áfrýjunarstefna var sem áður segir gefin út 31. janúar 2014, en fram er komið að Héraðsdómur Reykjavíkur sendi 17. febrúar sama ár dómsgerðir í málinu til ríkissaksóknara, sem afhenti ekki Hæstarétti málsgögn fyrr en 17. október 2014. Engar haldbærar skýringar hafa komið fram á framangreindum og ítrekuðum drætti sem er aðfinnsluverður.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert