Hunsuðu konu í flogakasti og grátandi barn

Enginn kom mæðgunum til aðstoðar.
Enginn kom mæðgunum til aðstoðar.

„Hvað myndir þú gera ef þú sæir konu liggja ósjálfbjarga á gangstétt með 2 ára grátandi barn sér við hlið?
Flestir svara því sennilega til að auðvitað myndu þeir koma konunni og barninu til hjálpar.
Þegar á reynir er reyndin þó oft önnur...“

Svona hefst Facebook færsla Elsu Þorbjarnardóttur sem hún birti fyrr í dag. 

Í færslunni segir hún frá því hvernig systir hennar og tveggja ára systurdóttir voru hunsaðar út á götu þar sem systir hennar lá í götunni með flog. Hafði systir Elsu sótt dóttur sína á leikskólann og voru þær á leiðinni heim er flogið átti sér stað. 

„Þær eru síðan ekki hálfnaðar heim, þegar hún hrynur í jörðina í flogakasti. Fyrir mikla mildi gerist þetta á gangstéttinni en ekki útá götunni. Gangstéttin liggur við rólega götu sem flest allir foreldrar keyra til að sækja börnin sín á umræddan leikskóla á þessum tíma dags. Hún hefur legið þarna í jörðinni, rænulaus, í um 10 mínútur með 2 ára grátandi barn sér við hlið. ENGINN kom henni til aðstoðar á þessum tíma og þegar hún rankar við sér sér hún stúlku sem býr í götunni hennar, sem tekur sveig framhjá þeim en kemur ekki til þeirra,“ segir m.a. í færslu Elsu.

„Við þökkum mikið fyrir það hvað tátan er róleg og fór ekki frá mömmu sinni. Þegar mamman ranka við sér gat hún dröslað þeim með miklum erfiðismunum yfir götuna og heim uppá þriðju hæð, þar átti hún í erfiðleikum með að finna lyklana sína og hafði ekki rænu á að hringja í manninn sinn eða gefa barninu að borða. Það hefði breytt miklu ef einhver hefði getað aðstoðað þær, þó ekki hefði verið annað en setið hjá barninu á meðan mamman rankaði við sér.

Það stoðar lítið að vera reiður við þá sem fóru hjá og komu þeim ekki til aðstoðar, en mikið væri gott ef þessi saga gerði það að verkum að einhverjir stoppi næst og sjái hvort þeir geti aðstoð náungann sem gæti þurft á því að halda og væru börnum sínum fyrirmynd í náungakærleik,“ skrifar Elsa að lokum.

Hefur færslan vakið sterk viðbrögð og hefur henni verið deilt 368 sinnum. 

Færslu Elsu í heild sinni má sjá hér að neðan.

Hvað myndir þú gera ef þú sæir konu liggja ósjálfbjarga á gangstétt með 2 ára grátandi barn sér við hlið?
Flestir svara því sennilega til að auðvitað myndu þeir koma konunni og barninu til hjálpar.
Þegar á reynir er reyndin þó oft önnur...

Ég ætla að segja ykkur sögu:
Ég á systur sem er 33 ára, hún er núna í áratug búin að glíma við veikindi sem einkennast af flogaköstum og síðustu tvö árin hafa verið henni og fjölskyldu hennar mjög erfið. Flogaköstin hafa undanfarið einkennst af ráðvillu, þar sem hún veit ekki hvað hún er að gera, svara ekki eða svara öllum spurningum eins og ætlar jafnvel hálfklædd og skólaus út úr húsi. Ofaní ráðvilluna koma svo höfuðkrampar, þar sem hún stífnar upp og hristist. Þetta eru ekki svona „típísk“ teiknimyndaflog svo fyrir ókunnugan er kannski erfitt að greina að um flogakast sé að ræða. Þessum veikindum fylgja margar hindranir, hún má ekki keyra og getur takmarkað verið ein heima með stelpurnar sínar tvær, 10 og 2 ára og margt sem ekki er æskilegt að hún geri, því það getur framkallað flog. Hún er á einum stærsta lyfjaskammti sem gefinn hefur verið við flogaveiki á Íslandi og alltaf er bætt í, en allt kemur fyrir ekki, köstin halda áfram að koma og árið 2014 fékk hún yfir 70 flog.

Í gær kom hún heim úr vinnunni með strætó og fór beint að sækja 2 ára dóttur sína á leikskólann. Leikskólinn er í um 3 mín. göngufæri frá heimili þeirra og þarf að fara yfir eina götu. Hún klæðir dóttur sína í úlpu en eitthvað hefur hún verið orðin utan við sig, því hún gleymdi að setja á hana húfu. Þær eru síðan ekki hálfnaðar heim, þegar hún hrynur í jörðina í flogakasti. Fyrir mikla mildi gerist þetta á gangstéttinni en ekki útá götunni. Gangstéttin liggur við rólega götu sem flest allir foreldrar keyra til að sækja börnin sín á umræddan leikskóla á þessum tíma dags. Hún hefur legið þarna í jörðinni, rænulaus, í um 10 mínútur með 2 ára grátandi barn sér við hlið. ENGINN kom henni til aðstoðar á þessum tíma og þegar hún rankar við sér sér hún stúlku sem býr í götunni hennar, sem tekur sveig framhjá þeim en kemur ekki til þeirra. Við þökkum mikið fyrir það hvað tátan er róleg og fór ekki frá mömmu sinni. Þegar mamman ranka við sér gat hún dröslað þeim með miklum erfiðismunum yfir götuna og heim uppá þriðju hæð, þar átti hún í erfiðleikum með að finna lyklana sína og hafði ekki rænu á að hringja í manninn sinn eða gefa barninu að borða. Það hefði breytt miklu ef einhver hefði getað aðstoðað þær, þó ekki hefði verið annað en setið hjá barninu á meðan mamman rankaði við sér.

Það stoðar lítið að vera reiður við þá sem fóru hjá og komu þeim ekki til aðstoðar, en mikið væri gott ef þessi saga gerði það að verkum að einhverjir stoppi næst og sjái hvort þeir geti aðstoð náungann sem gæti þurft á því að halda og væru börnum sínum fyrirmynd í náungakærleik.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert