Fleiri með höfuðverk og vöðvabólgu eftir hrun

Íslenskar fjölskyldur hafa upplifað frekari streitu eftir efnahagshrunið.
Íslenskar fjölskyldur hafa upplifað frekari streitu eftir efnahagshrunið. mbl.is/AFP

Flestir vita að við efnahagshrunið 2008 hækkuðu skuldir ríkisins og heimilanna. Jafnframt hækkaði leiguverð og verðbólga jókst. En hver voru áhrif efnahagshrunsins á fjölskyldur?

Í erindi Dr. Freydísar Jónu Freysteinsdóttur, félagsráðgjafa, á Félagsráðgjafaþingi í gær var leitað eftir að svara þeim spurningum.

Bar erindið yfirskriftina Áhrif efnahagshrunsins á fjölskyldur á Íslandi.

Sagði Freydís frá aðdraganda efnahagshrunsins, þar sem bankakerfið stækkaði og skuldasöfnun þjóðarinnar í öðrum löndum jókst. Einnig varð munur á tekjum fjölskyldna meiri. Benti Freydís á að fjölskyldur með miklar tekjur nutu góðærisáranna meira en fjölskyldur með miðlungs- og lágar tekjur.

„Skuldir ríkisins jukust í kjölfar hrunsins, og skuldir heimilanna líka,“ sagði Freydís. Bætti hún við að skuldir heimilanna hafi verið hæstar árið 2010. Séu þær aðeins minni núna og munu þær lækka meira með leiðréttingu stjórnvalda á verðtryggðum húsnæðislánum.

40% íslenskra fjölskyldna skulduðu meira en þær áttu um tíma eftir efnahagshrunið. Tengdi Freydís það m.a. við hækkun húsnæðislána og lifikostnaðar á Íslandi. Jafnframt hafa 67% Íslendinga miklar áhyggjur af verðbólgu samkvæmt nýlegri könnun Capacent. Í erindi Freydísar kom fram að verðbólga á Íslandi hafi verið sú hæsta í Evrópu á tímabili eftir hrun. „Á sama tíma hafa bankarnir þrír hagnast umtalsvert, ekki síst á húsnæðislánum,“ sagði Freydís.

Húsaleiga hækkað um 38%

Óhagstæður leigumarkaður var annað umræðuefni Freydísar í dag. Kom fram að árið 2005 hafi 13% fjölskyldna leigt húsnæði en 25% árið 2012. „Húsaleiga er nú 38% hærri samanborið við það sem hún var fyrir efnahagshrunið,“ sagði Freydís.

„Húsnæðislán hækkuðu verulega eftir efnahagshrunið og fjölskyldur misstu húsnæði sín. Þess vegna varð aukin aðsókn í leigu,“ bætti hún við.

Í kjölfar verðbólgunnar hækkuðu ýmsar vörur eins og matur, bensín, fatnaður og aðrar nauðsynjar. Hafa jafnframt ráðstöfunartekjur fólks lækkað töluvert en þær voru 13% lægri árið 2012 en 2007.

Önnur afleiðing efnahagshrunsins var atvinnuleysi. „Margir misstu vinnuna eftir hrun, en atvinnuleysi var varla til á Íslandi fyrir hrun og hafði það verið þannig í áratugi,“ sagði Freydís og bætti við að atvinnuleysi hafi aukist úr 2% í um það bil 8% eftir hrun. „Það er mikið í okkar litla landi,“ sagði Freydís.

Með auknu atvinnuleysi varð það æ algengara að fólk hélt erlendis í leit að vinnu, þá að miklu leyti til Noregs. Í mörgum tilvikum fór þó aðeins eitt foreldri og úr varð að hitt varð eftir heima með börnin. Sagði Freydís að þannig aðstæður gæti vel aukið streitu í fjölskyldum þar sem það situr á einum að sjá um fjölskylduna.

Aukin vöðvabólga, bak- og höfuðverkir

Einnig má sjá áhrif efnahagshrunsins á heilsufar.  Eins og Freydís benti á hækkaði blóðþrýstingur meðal karla í efnahagshruninu, vöðvabólga jókst sem og bak- og höfuðverkir.

Freydís komst að þeirri niðurstöðu að íslenskar fjölskyldur hafi upplifað frekari streitu í kjölfar efnahagshrunsins. Ástæður þess eru ýmsar en má þar nefna aukið atvinnuleysi, lægri tekjur, hærri skuldir og aukin útgjöld vegna hærri lyfjakostaðs.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert