Heimilisofbeldi er ekkert einkamál

Alda Hrönn Jóhannsdóttir, aðstoðarlögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu.
Alda Hrönn Jóhannsdóttir, aðstoðarlögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu. mbl.is/Júlíus Sigurjónsson

Heimilisofbeldi er ekki einkamálefni fólks og samfélagið lítur ekki heimilisofbeldi nægjanlega alvarlegum augum, segir Alda Hrönn Jóhannsdóttir, aðstoðarlögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu. Hún segir að allt of margir verði uppvísir að ítrekuðum brotum. „Ef við aðstoðum ekki þolendur og gerendur þá heldur vítahringurinn áfram jafnvel í nýjum samböndum,“ segir Alda. 

Hún fjallaði í erindi sínu á fundi Náum áttum samstarfshópsins um aukna áherslu lögreglunnar og Reykjavíkurborgar á heimilisofbeldi og leiðir til úrbóta. 

Hjá lögreglunni er skilgreiningin á heimilisofbeldi að það sé um náin tengsl að ræða og um hegningarlagabrot sé að ræða. Vettvangur skiptir engu máli en brotin geta átt sér stað hvar sem er.

Alda Hrönn, sem starfaði áður sem yfirlögfræðingur lögreglustjóraembættisins á Suðurnesjum, fjallaði um átak gegn heimilisofbeldi sem hófst á Suðurnesjum í febrúar 2013, fyrst sem tilraunaverkefni og að því loknu sem frambúðarverklag.

Fengu ekki framgöngu innan réttarkerfisins

Verkefnið var unnið í samvinnu við félagsmálayfirvöld á svæðinu. Aðdragandi verkefnisins var sá að það var upplifun lögreglu að fá heimilisofbeldismál fengu framgöngu innan réttarkerfisins, úrræði um nálgunarbann og brottvísun af heimili voru ekki nýtt m.a. vegna þess að stuðning skorti fyrir þolendur og eftir atvikum gerendur, ósamræmi í afgreiðslu mála og skráningu þrátt fyrir verklagsreglur og heimilisofbeldi var ekki litið nægilega alvarlegum augum í samfélaginu svo vitundavakningu þurfti til að stemma stigu við þeirri ógn og lýðheilsuvandamáli sem heimilisofbeldi er.

Markmiðið með verkefninu var að fyrstu viðbrögð lögreglu yrðu markvissari og rannsóknir vandaðri í því skyni að koma í veg fyrir ítrekuð brot, að fleiri mál sættu ákæru, að úrræði um nálgunarbann og brottvísun af heimili væru betur nýtt og að aðstoð við þolendur og gerendur yrði betur nýtt.

Hún segir það upplifun lögreglunnar að fá heimilisofbeldismál hafi fengið framgöngu innan réttarkerfisins.  Úrræði um nálgunarbann og brottvísun af heimili voru ekki nýtt, stuðning skorti fyrir þolendur og eftir atvikum gerendur og ekki var samræmi í afgreiðslu mála og skráningu þrátt fyrir verklagsreglur.

Á haustmánuðum 2014 var ákveðið að innleiða svipuð verklag í samvinnu við Reykjavíkurborg sem lagði 50 milljónir króna til verkefnisins í formi bakvaktar hjá félagsþjónustu. Ekki var um að ræða að sérstakir fjármunir væru lagðir í verkefnið hjá embætti LRH þó það hafi fljótlega sýnt sig að verkefnið muni kosta töluverða fjármuni. Er því hjá embættinu forgangsraðað í þágu málaflokksins. Í desember sl. tóku gildi nýjar verklagsreglur RLS er snúa að vinnu lögreglu í þessum málaflokki.

51 mál á mánuði

Verkefnið hófst þann 12. janúar síðastliðinn og hefur það strax sýnt sig að þörfin er mikil enda hefur tilkynningum um heimilisofbeldi fjölgað töluvert. Ekki er þó talið að meira sé um heimilisofbeldi en verið hefur, heldur eru málin betur skráð/unnin/yfirfarin hjá lögreglu, auk þess sem tilkynningum hefur fjölgað, hugsanlega vegna vitundarvakningar í samfélaginu. LRH á í viðræðum við önnur sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu um að þar verði tekið upp samsvarandi verklag.

Á tímabilinu 12. janúar til 12. febrúar kom 51 heimilisofbeldismál til kasta lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu sem er svipaður fjöldi mála og á heilu ári á Suðurnesjum. Í 86% tilvika voru gerendurnir karlar og í 78% tilvika voru málin skráð sem líkamsárásir. Í 75% tilvika var um ofbeldi milli maka eða fyrrverandi maka og í einu tilviki var um mannslát að ræða.

Íslendingar í meirihluta fórnarlamba og gerenda

Af gerendunum áttu 75% þeirra fyrri sögu um ofbeldi og 75% þolenda voru konur. Á 67% heimilanna voru börn, 67% gerenda voru íslenskir og 64% voru íslenskir. 59% gerenda eru á aldrinum 18-39 ára en 55% þolenda er á þeim aldri.

Að sögn Öldu er til mikils er að vinna fyrir gerendur, þolendur og börn á heimilinu með því að ná að grípa inn í aðstæður og hugsanlega stöðva heimilisofbeldi. Auk þess hefur verkefnið mikið forvarnagildi en Bretar hafa reiknað það út að fyrir hvert pund sem lagt er í verkefni af þessu tagi sparast önnur sex.

Hún segir að lögreglan vilji nýta betur þann glugga betur þegar lögregla er kölluð á vettvang. Að veita aðstoð meðal annars með vettvangsrannsókn, taka viðtöl við vitni og þá sem verða fyrir ofbeldinu og beita ofbeldi. Barnavernd er kölluð út ef börn eru á heimilinu og eins eru áverkar þolenda myndaðir og þeir fá læknisrannsókn. Fórnarlömbum eru kynnt þau úrræði sem eru í boði og málunum fylgt eftir af fagfólki.

Þóra Kemp, deildarstjóri á velferðarsviði Reykjavíkurborgar, sagði í pallborðsumræðum á fundinum, að hjá sviðinu sé það alltaf sama manneskjan sem fylgi málinu eftir allt frá útkallinu.

Að sögn Þóru hafa starfsmenn á velferðarsviðinu farið í 25 útköll á tímabilinu frá 12. janúar, þegar átakið hófst, til 16 febrúar. Það séu sex þjónustumiðstöðvar sem koma þar að og skipta þær á milli sín vöktunum sem koma á öllum tímum sólarhringsins. Fram kom í máli Öldu að flest brotin séu framin um helgar en Þóra segir að það hafi í raun komið velferðarsviðinu á óvart að heimilisofbeldið eigi sér stað á hvaða tíma sólarhringsins sem er.

Einar Gylfi Jónsson, sálfræðingur, hefur sinnt meðferðarúrræðum fyrir gerendur heimilisofbeldis í gegnum verkefnið „karlar til ábyrgðar“ sem er eina sérhæfða meðferðaúrræðið fyrir karla sem beita ofbeldi á heimilum hér á landi. Um er að ræða einstaklingsmeðferð og hópmeðferð hjá sálfræðingum. Þótt karlar séu ekki einir um að beita ofbeldi er meðferðarúrræðið aðeins fyrir þá en eins og tölur sýna fram á þá eru karlar í flestum tilvikum gerendur heimilisofbeldis.

Hann fagnar því samstarfi sem Reykjavíkurborg og lögreglan eru í hvað varðar ofbeldi á heimilum og bendir á að í þjóðfélaginu hafi orðið vitundarvakning á þessu sviði. Það sjái hann í gegnum starf sitt en nú er orðið eitthvað um að fólk leiti til þeirra án opinberra afskipta. Það hafi verið óþekkt í fyrstu.

Hann hefur hins vegar áhyggjur af því að verkefnum sé bætt á velferðarsviðið sem sé undirmannaður vinnustaður og fólk hlaðið verkefnum.

Börn sem upplifa ofbeldi eru líklegri til þess að beita ofbeldi

Sólveig Ásgrímsdóttir, sálfræðingur og fyrrverandi forstöðumaður Stuðla, meðferðarstöðvar ríkisins fyrir unglinga, sagði á fundinum að flest þeirra barna sem dvöldu á Stuðlum og glímdu við hegðunarvanda hafi allflest upplifað andlegt ofbeldi, annað hvort sem vitni eða sem bein fórnarlömb. Hún segir að oft sé barni sem upplifi ofbeldi á heimili sínu ekki alltaf veitt nægjanleg aðstoð. Þetta hafi áhrif á þroska þeirra og hæfni til samskipta. Jafnframt eru þau líklegri til að verða gerendur slíks ofbeldis síðar. Því börnin læra það sem fyrir þeim er haft. 

Að sögn Einars Gylfa hafa um 60-70% þeirra karla sem beita ofbeldi orðið sjálfir fyrir ofbeldi. Hann sagði að þau börn sem búa á heimilum þar sem ofbeldi er fyrir hendi líði oft svipað og börnum sem búa á átakasvæðum. Slík sé vanlíðanin.

Barnaverndastofa rekur fjögur meðferðarheimili eða deildir. Stuðlar eru flaggskipið.
Barnaverndastofa rekur fjögur meðferðarheimili eða deildir. Stuðlar eru flaggskipið. mbl.is/Þórður
Börn sem upplifa ofbeldi á heimilum eru líklegri til þess …
Börn sem upplifa ofbeldi á heimilum eru líklegri til þess að fremja slík brot en önnur börn mbl.is/Kristinn Ingvarsson
Á 67% heimila sem lögreglan var kölluð á vegna heimilisofbeldis …
Á 67% heimila sem lögreglan var kölluð á vegna heimilisofbeldis voru börn á heimilinu. Eggert Jóhannesson
Svona lítur Fokk ofbeldi armbandið út.
Svona lítur Fokk ofbeldi armbandið út.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert