Sáu ekki flóðið vegna lélegs skyggnis

Svona er umhorfs á veginum um Mikladal við Patreksfjörð, séð …
Svona er umhorfs á veginum um Mikladal við Patreksfjörð, séð úr vefmyndavél Vegagerðarinnar. mynd/Vegagerðin

Það er svo blint að við sáum ekki þegar flóðið féll. Maður man ekki eftir svona veðri síðan snjóflóðin féllu hér áður fyrr,“ segir Erla Hafliðadóttir, íbúi á Patreksfirði, um snjóflóð sem féll þar í bæ um klukkan eitt í dag. 

Flóðið var um 70 metrar á breidd og féll á milli Urðargötu og Mýra. Engan sakaði, en flóðið tók með sér mannlausa bifreið.

Erla er búsett á Urðargötu, skammt frá því þar sem flóðið féll, en hún segist ekki hafa orðið vör við það þar sem skyggni sé lítið sem ekkert. Þá segir hún mikið aftakaveður á svæðinu.

Davíð Gúnar Gunnarsson, formaður svæðisstjórnar björgunarsveitanna á Patreksfirði segir þrettán hús hafa verið rýmd, og þær aðgerðir hafi gengið vel. Byrjað var að rýma húsin um klukkan tvö, og tóku aðgerðirnar klukkustund. 

Íbúarnir eru um fjörtíu talsins, og hafa þeir komið sér fyrir á Fosshóteli.

Davíð segir flóðið hafa fallið á þekkt snjóflóðasvæði þar sem skarð er í byggðinni. Flóðið tók með sér mannlausa bifreið, en ekki er ljóst hvert tjónið á henni er. „Þetta var í endann á flóðinu og bíllinn færðist nokkra metra,“ segir hann.

Búið er að loka svæðinu, en snjónum hefur ekki verið komið af veginum. Ekki er ljóst hver hættan á öðru flóði er þar sem skyggni á svæðinu er lítið. Þungfært er í bænum og mikið snjófok. Veðrið fer versnandi á svæðinu.

Frétt mbl.is: Snjóflóð féll á Patreksfirði

Patreksfjörður.
Patreksfjörður. © Mats Wibe Lund
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert