Kröfum Glitnismanna aftur hafnað

Lárus Welding og Óttar Pálsson, verjandi hans.
Lárus Welding og Óttar Pálsson, verjandi hans. Þórður Arnar Þórðarson

Héraðsdómur Reykjavíkur hafnaði í dag kröfum verjenda sakborninga í Stím-málinu svonefnda um að fá afhent gögn og að kveða til matsmenn. Að sögn Karólínu Finnbjörnsdóttur, saksóknarfulltrúa hjá sérstökum saksóknara, hafnaði Hæstiréttur sambærilegum kröfum verjenda Glitnismanna í desember og héraðsdómur hafi litið til þess.

Hæstiréttur staðfesti úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur um það sem Karólína segir hafa verið sambærilegar kröfur í desember. Verjendur Lárusar Welding, fv. bankastjóra Glitnis, og Jóhannesar Baldurssonar, fv. framkvæmdastjóra markaðsviðskipta bankans, settu í janúar fram svipaðar kröfur en á nýjum lagagrundvelli.

Karólína segir að Héraðsdómur hafi vísað til niðurstöðu Hæstaréttar efnislega þegar hann hafnaði kröfum þeirra að þessu sinni. Verjendurnir hafa nú þrjá sólahringa til að ákveða hvort þeir kæri úrskurðinn til Hæstaréttar.

Á meðan er þess beðið að þinghald geti hafist í málinu og frestur verði gefinn til að skila inn greinargerðum. Rúmt ár er nú liðið frá því að ákærur í málinu voru gefnar út. Þeir Lárus og Jóhannes eru ákærðir ásamt Þorvaldi Lúðvík Sigurjónsson, fv. forstjóra Saga Capital, fyrir umboðssvik og hlutdeild í umboðssvikum þegar Glitnir lánaði félaginu Stím tugi milljarða króna.

Fyrri fréttir mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka