„Við erum bara að verja okkur“

Frá fundi samninganefndar SGS og SA í janúar.
Frá fundi samninganefndar SGS og SA í janúar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Málið er ósköp einfalt; Samtök atvinnulífsins vildu ekki ræða okkar sanngjörnu kröfugerð og þá var ekkert annað að gera en að lýsa þessum fundi árangurslausum og slíta honum,“ segir Björn Snæbjörnsson, formaður Starfsgreinasambandsins, í samtali við mbl.is.

Sambandið lýsti í dag yfir árangurslausum viðræðum við Samtök atvinnulífsins, en reynt hefur verið að ná endurnýjun kjarasamninga í nokkra mánuði án árangurs. Kröfur SGS eru þær að lægstu laun verði komin upp í 300 þúsund krónur innan þriggja ára svo launafólk hafi möguleika til að lifa af dagvinnulaunum. 

„Við erum bara að verja og fylgja eftir okkar kröfum og réttindum og ég tel að þetta sé algjörlega á ábyrgð Samtaka atvinnulífsins,“ segir hann og bætir við að það séu mikil vonbrigði að Samtök atvinnulífsins hafi ekki verið tilbúin til að koma til móts við þessar kröfur. Nú sé sambandið því nauðbeygt til að hefja undirbúning verkfallsaðgerða og muni leita heimildar hjá sínum félögum til verkfallsboðunar. 

„Þegar lægst launaða fólkið fer fram á kauphækkun fer allt til fjandans

Í til­kynn­ingu frá Sam­tök­um At­vinnu­lífs­ins kem­ur fram að Starfs­greina­sam­band Íslands hafni nálg­un SA um að halda áfram að byggja upp kaup­mátt launa á grund­velli verðstöðug­leika. „Í stað þess er nálg­un SGS að krefjast tug­pró­senta launa­hækk­ana sem mun leiða til mik­ill­ar verðbólgu á skömm­um tíma og stökk­breyta verðtryggðum skuld­um heim­ila og fyr­ir­tækja, hækka vexti og fella gengi krón­unn­ar,“ seg­ir í til­kynn­ingu SA.

Björn hafnar þessu alfarið, og segir Samtök atvinnulífsins etja SGS út í verkfallsaðgerðir, svo sambandið neyðist til að verja hendur sínar. Innan þriggja ára erum við að tala um að lægsti taxti fari úr 201 þúsund upp í 300 þúsund. Þetta er ekki einu sinni helmingurinn af því sem sumir hafa verið að fá í launahækkanir upp á síðkastið, en þegar lægst launaða fólkið fer fram á kauphækkun fer allt til fjandans.

Segir lægstu launin í landinu til skammar

Í tilkynningu frá SGS kemur fram að þau átök á vinnumarkaði sem þetta hefur í för með sér séu afleiðing annars vegar skilningsleysis Samtaka atvinnulífsins á þeim launum sem fólk þarf til að lifa af og hins vegar stjórnvalda sem brugðust algerlega í þeirri tilraun sem gerð var fyrir rúmu ári síðan með hóflegar launahækkanir og aukinn kaupmátt. Til þess að sú tilraun gengi upp hafi allir þurft að taka þátt en svo hafi einfaldlega ekki verið.

„Ég tel líka að lægstu launin í landinu séu til skammar og það er algjörlega á ábyrgð Samtaka atvinnulífsins að fólk hafi ekki í sig og á. Þeir ættu að sýna það að þeir meini eitthvað með því að þeir vilji hafa eitthvað reist hér á landi og samþykkja þessar kröfur okkar í stað þess að etja okkur út í verkfallsaðgerðir,“ segir Björn.

Mun lama landsbyggðina að stórum hluta

Samstaða innan samninganefndar Starfsgreinasambandsins er fullkomin og viðræðuslit voru samþykkt einróma af öllum fulltrúum þeirra 16 aðildarfélaga sem SGS fer með samningsumboð fyrir en þau eru: AFL Starfsgreinafélag, Aldan stéttarfélag, Báran stéttarfélag, Drífandi stéttarfélag, Eining-Iðja, Framsýn stéttarfélag, Stéttarfélagið Samstaða, Stéttarfélag Vesturlands, Verkalýðsfélag Akraness, Verkalýðsfélag Grindavíkur, Verkalýðs- og sjómannafélag Bolungarvíkur, Verkalýðs- og sjómannafélag Sandgerðis, Verkalýðsfélag Snæfellinga, Verkalýðsfélag Suðurlands, Verkalýðsfélag Vestfirðinga, Verkalýðsfélag Þórshafnar.

Björn segist ekki efast um að góðar undirtektir verði hjá aðildarfélögunum. „Fólki er nóg boðið þessi yfirgangur Samtaka atvinnulífsins,“ segir hann. Loks segir hann SGS gera ráð fyrir því að atkvæðagreiðsla um verkfallsaðgerðir verði lokið fyrir páska, en tæplega 13 þúsund manns eru í aðildarfélögunum 16 og verður atkvæðagreiðslan rafræn.

„Menn fara aldrei út í verkfallsaðgerðir nema í neyð. Þetta er neyðarrétturinn okkar sem við höfum ef enginn vill tala við okkur. Það gerir þetta enginn að gamni sínu en neyðin knýr okkur áfram í þetta,“ segir Björn. „En þetta mun lama landsbyggðina að stórum hluta.“

Frétt mbl.is: Verkföll alfarið á ábyrgð SGS

Björn Snæbjörnsson, formaður Starfsgreinasambandsins, með kröfugerðina undir hendi á leið …
Björn Snæbjörnsson, formaður Starfsgreinasambandsins, með kröfugerðina undir hendi á leið til fundar við Samtök atvinnulífsins í janúar ásamt Finnboga Sveinbjörnssyni, formanni Verkalýðsfélags Vestfjarða. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert