Hefði alltaf þurft nýtt umboð þingsins

Jón Bjarnason, formaður Heimssýnar.
Jón Bjarnason, formaður Heimssýnar. mbl.is/Árni Sæberg

„Ég fagna að sjálfsögðu þessari ákvörðun ríkisstjórnarinnar. Hún kemur ekki á óvart. Þetta er mál sem ríkisstjórnin hefði átt að afgreiða strax eftir þingkosningarnar fyrir tæpum tveimur árum enda stefna hennar og umboð til þess skýrt,“ segir Jón Bjarnason, formaður Heimssýnar og fyrrverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, um þá ákvörðun ríkisstjórnarinnar að draga umsókn Íslands um inngöngu í Evrópusambandið formlega til baka.

Jón segir að umsóknin um inngöngu í Evrópusambandið hafi í raun bæði pólitískt og efnislega verið komin í þrot árið 2011. Þannig hafi sambandið þá hafnað fyrirvörum Íslands bæði í sjávarútvegs- og landbúnaðarmálum eins og þeir voru settir fram í áliti meirihluta utanríkismálanefndar Alþingis frá 2009 sem fylgdi umsókninni. „Það voru skýrir fyrirvarar af hálfu Alþingis að við gæfum ekki forræði í þeim málum frá okkur og Evrópusambandið var ekki reiðubúið að fallast á það. Við yrðum að taka yfir allar reglur sambandsins í þeim efnum og á meðan við værum ekki reiðubúin að gera það yrði ekki lengra haldið.“

Þannig hafi verið ljóst strax árið 2011 að ekki yrði lengra haldið á grundvelli þingsályktunar Alþingis frá 2009 um að sótt yrði um inngöngu í Evrópusambandið. „Fyrri ríkisstjórn ákveður síðan að stöðva viðræðurnar við Evrópusambandið í janúar 2013 einfaldlega vegna þess að þær voru stopp. Síðan gerði næsta ríkisstjórn í raun ekki annað en að framlengja það stopp. Ef halda ætti þessu ferli áfram einhvern tímann þyrfti fyrir vikið alltaf að sækja nýtt umboð til Alþingis einfaldlega vegna þess að ekki verður komist lengra á grundvelli fyrri samþykktar.“

Jón segir ákvörðun ríkisstjórnarinnar þess utan vera ánægjulega fyrir hann persónulega enda hafi hann á sínum tíma verið settur út úr ríkisstjórn Samfylkingarinnar og Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs vegna málsins. „Mér var bolað út úr ríkisstjórn á sínum tíma fyrir þá sök að hafa viljað standa á rétti Íslands gagnvart Evrópusambandinu meðal annars í sjávarútvegs- og landbúnaðarmálum. Þannig að fyrir vikið er þessi endanlega niðurstaða óneitanlega ánægjuleg fyrir mig persónulega.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka